Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 10. 2018 | 20:00

Evróputúrinn: Francesco Molinari kylfingur ársins 2018

Það er Francesco Molinari, sigurvegari  Open breska risamótsins og Race to Dubai meistari, sem var útnefndur Hilton kylfingur ársins 2018 á Evrópumótaröð karla.

Þetta er í fyrsta sinn sem hann hlýtur þennan titil.

Það var nefnd golfritara sem valdi Molinari til þess að hljóta titilinn eftir frábæra 12 mánuða golfspilamennsku.

Francesco Molinari hóf árið með glæsisigri í  BMW PGA Championship og svo vann hann einnig fyrsta risamótssigur sinn á ferlinum í 147. Opna breska auk þess sem hann var í lykilhlutverki í Ryder sigri liðs Evrópu, annar tveggja í ógleymanlegu sigurtvenndinni „Moliwood“, eins og hann og Tommy Fleetwood voru uppnefndir af áhangendum.

Jafnframt var hann nálægt því að sigra á heimavelli á Opna ítalska með glæsiskor upp á (66 66 66 64), en varð að láta sér lynda 2. sætið í móti þar sem hinn danski  Thorbjørn Olesen stóð uppi sem sigurvegari.

Molinari varð síðan fyrsti ítalski kylfingurinn til þess að verða efstur á peningalista Evrópumótaraðarinnar, þ.e. varð efstur á „The Race to Dubai“ peningalistanum.

„Það er gríðarlegur heiður að vera útnefndur Hilton kylfingur ársins“ sagði Molinari m.a. þegar hann tók á móti verðlaununum í dag, mánudaginn 10. desember 2018 í Hilton hótelinu í London við Park Lane.

Það hafa verið svo mörg stór nöfn sem hlotið hafa þennan heiður og ég er mjög stoltur að vera einn af þeim.“

„Þessi viðurkenning hefir mikla þýðingu fyrir mig og þetta er ánægulegur endir á mjög sérstöku ári. Sigurinn á Wentworth, sem er eitt af stærstu mótunum gaf mér mikið sjálfstraust í sumar, en augljóslega var það að sigara á Opna breska á Carnoustie og verða fyrsti risamótsmeistari lands míns ótrúlegt.“

„Að fara síðan og sigra  Race to Dubai og vera hluti af liði Evrópu í Rydernum var frábært. Ég mun alltaf líta til þessa keppnistímabils með stolti,“ var meðal þess sem Molinari sagði þegar hann tók við heiðursviðurkenningunni.