Ragnheiður Jónsdóttir | október. 18. 2021 | 10:00

Evróputúrinn: Fitz sigraði á Estrella Damm

Það var enski kylfingurinn Matthew Fitzpatrick (oft kallaður Fitz), sem sigraði á móti vikunnar á Evróputúrnum, Estrella Damm N.A. Andalucia Masters.

Mótsstaður var Valderrama í Andaluciu, á Spáni.

Með sigrinum varð Fitz 4. yngsti kylfingur í sögu Evróputúrsins til að sigra 7 sinnum á mótaröðinni.

Fitz lék á samtals 6 undir pari, 278 höggum (71 68 70 69).

Fitz er fæddur 1. september 1994  og því 27 ára. Hann er sonur Russell og Susan Fitzpatrick og á yngri bróður, Alex, sem spilar golf með Wake Forest háskólanum, sama háskóla og Ólafía „okkar“ Þórunn var í. Fitz býr í Sheffield í Englandi og Jupiter í Flórída. Hann lék á sínum tíma með í liði Northwestern University, í Illinois í bandaríska háskólagolfinu. Fitz gerðist atvinnumaður í golfi 2014 og hefir því að meðaltali sigrað 1 sinni á hverju ári á Evróputúrnum frá því að hann fór í atvinnumennskuna.

Öðru sætinu á Estrella Damm deildu Svíinn Sebastian Söderberg og Ástralinn Min Woo Lee, báðir á samtals 3 undir pari, 281 höggi, hvor.

Sjá má lokastöðuna á Estrella Damm mótinu með því að SMELLA HÉR: