Ragnheiður Jónsdóttir | september. 19. 2014 | 07:30

Evróputúrinn: Colsaerts setti nýtt met um lengsta drævið á túrnum á Wales Open – Luiten leiðir – Hápunktar 1. dags

Nicolas Colsaerts frá Belgíu er enn einn kylfingurinn sem var í kraftaverkaliði Olazabál í Medinah, sem ekki verður með í Ryder bikarnum í Gleneagles í næstu viku.

Colsaerts er ein mesta sleggja golfsins beggja vegna Atlantsála og setti nýtt met hvað högglengd varðar í gær á 18. holu (9. hola hans á hringnum) Twenty ten vallarins á Celtic Manor, þar sem Wales Open fer fram.

Átjánda holan er par-5 575 yarda (525,78 metra).  Teighögg Colsaerts á 18. holu var 447 yarda (408,74 metra) og bætti hann eldra lengdarmet á Evrópumótaröðinni um 5 yarda (u.þ.b. 4,5 metra), en fyrra metið átti Indverjinn Shiv Kapur og setti hann það á Madeira Islands Open, árið 2012 og var það 442 yarda (404,16 metra).

Colsaerts sagði að hann hefði nýtt sér meðvind og það að völlurinn var harður og hann fékk mikið „bounce“ á boltann.  Hann setti síðan niður glæsiörn á 18. holunni!!!

Auk arnarins fékk Colsaerts 5 fugla og 2 skolla, lék 1. hring á 5 undir pari, 66 höggum og er sem stendur í 2. sæti ásamt Skotanum Andrew McArthur, 1 höggi á eftir forystumanni mótsins, Hollendingnum Joost Luiten.

Sjá má stöðuna eftir 1. dag Wales Open með því að SMELLA HÉR:

Sjá má hápunkta 1. dags á Wales Open með því að SMELLA HÉR: