Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 7. 2013 | 13:00

Evróputúrinn: Branden Grace tilbúinn að verja titil sinn á Volvo Golf Champions

Branden Grace mun freista þess að hefja árið á sama hátt og í fyrra þegar hann vann Volvo Golf Champions.  Mótið hefst í Durban Country Club í Durban, Suður-Afríku n.k. fimmtudag 10. janúar og stendur til sunnudagsins 13. janúar.  Í mótinu er verðlaunaféð € 2.000.000 (um 330 milljónir íslenskra króna).

Í fyrra vann Grace átrúnaðargoð sín frá því hann var smástrákur í golfi, þ.e. þá Ernie Els og Retief Goosen í bráðabana með fugli á 1. holu  s.s. mörgum er eflaust í fersku minni.

Nýliðinn Grace átti frábært ár, 2012, varð í 6. sæti á stigalista Evrópumótaraðarinnar.

Varðandi það sem framundan er, titilvörnina á Durban golfvellinum sagði hann m.a.: „Ég hef aldrei áður varið titil þannig að þetta er í fyrsta sinn fyrir mig. Ég veit að það verður mikið um að vera í kringum mótið, en það er bara eitt af því sem ég verð að fást við og ég er viss um að ég muni njóta þess.“

„Það er staðreynd að ég er mun betri kylfingur en ég var þannig að ég er tilbúinn að verja titilinn. Þetta verður ný reynsla fyrir mig, þannig að við sjáum bara hvernig ég stend undir því og vonandi vinn ég aftur og byrja árið með stæl!“

Heimild: europeantour.com