Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 15. 2012 | 17:30

Evróputúrinn: Branden Grace sigraði á Joburg Open

Það var Branden Grace frá Suður-Afríku, sem stóð uppi sem sigurvegari á Joburg Open í Suður-Afríku.  Sigurskor hans var upp á samtals -17 undir pari, slétt 270 högg (67 66 65 72). Branden er sigurvegari á móti þar sem þrumur og eldingar hafa sett allt mótahald úr skorðum, en oftar en ekki varð að fresta mótinu og klára hringi daginn eftir. Branden hélt þetta út.  Þetta er fyrsti sigur hins 23 ára Branden Grace á Evróputúrnum, en hann er einn af þeim sem útskrifuðust úr Q-school í desember og því „einn af nýju strákunum“ á mótaröðinni.

Branden Grace og kylfusveinn hans Zack Rasego, sem átti stóran hluta í sigri sigurvegarans. Frábær kylfusveinn á ferð þar! Mynd: europeantour.com

„Þetta er bara draumur sem rætist“ sagði Branden Grace eftir sigurinn. „Það er yndislegt að sigra fyrir framan landa sína á heimavelli og ég myndi ekki vilja skipta á því og nokkru öðru.“

„Þetta var reglulega „töff“ þarna úti í dag. Ég spilaði ágætlega, ég var að slá feykivel, held ég en pútterinn var kaldur – ég bara gat ekki lesið hraða flatanna. Sem betur fer nægði það sem ég gerði í lok dags.“

„Lykilmaður í sigri mínum í dag var  Zack [Rasego] (fyrrum kylfusveinn Louis Oosthuizen, m.a. þegar sá vann Opna breska) – honum (Zack) tókst að róa mig í allan dag – þannig að hann á stæstan hluta þakkar minnar skilið.“

Í 2. sæti varð Englendingurinn Jamie Elson, aðeins 1 höggi á eftir Branden. Í 3. sæti varð hópur 6 kylfinga m.a. Jaco Van Zyl frá Suður-Afríku, en hann var líkt og hinir á -14 undir pari (273 höggum).

Í 9. sæti á -13 undir pari voru 4 kylfingar: Englendingurinn Robert Rock, Austurríkismaðurinn Bernd Wiesberger, Suður-Afríkumaðurinn Jbe Kruger og Skotinn George Murray.

Til að sjá úrslit á Joburg Open 2012, smellið HÉR: