Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 11. 2022 | 08:00

Evróputúrinn: Bjarki og Guðmundur Ágúst hefja leik í dag á lokaúrtökumótinu f. Evrópumótaröðina

Bjarki Pétursson

Bjarki Pétursson

Bjarki Pétursson, GKG og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GKG, hefja báðir leik í dag, föstudaginn 11. nóvember 2022 á lokaúrtökumótinu fyrir DP Evrópumótaröðina – sem er sterkasta atvinnumannamótaröðin í Evrópu.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson

Alls eru 153 keppendur sem komust inn á lokaúrtökumótið – um helmingur þeirra kemur í gegnum 2. stig úrtökumótsins líkt og þeir Bjarki og Guðmundur gerðu. Hinn helmingurinn kemur frá DP Evrópumótaröðinni, kylfingar sem náðu ekki að halda keppnisrétti sínum, á þessu tímabili.

Keppnisdagarnir eru alls 6 á lokaúrtökumótinu sem fram fer á Infinitum golfsvæðinu sem er rétt við bæinn Tarragona á Spáni og í næsta nágrenni við þekkt sumardvalarsvæði, Salou.

Fyrst eru leiknir fjórir hringir, tveir þeirra á Lakes vellinum og tveir á Hills vellinum. Eftir fjórða hringinn er niðurskurður þar sem að um helmingur keppenda fær tækfæri að leika á síðustu tveimur keppnisdögunum – en tveir síðustu hringirnir verða leiknir á Lakes vellinum. Að loknum sjötta keppnisdegi fá 20 efstu keppnisrétt á DP Evrópumótaröðinni

Þetta er í annað sinn sem Bjarki og Guðmundur Ágúst komast inn á lokaúrtökumótið – en þeir léku á því móti árið 2019.

Bjarki Pétursson leikur fyrsta hringinn á Lakes vellinum og Guðmundur Ágúst Kristjánsson leikur á Hills vellinum á 1. keppnisdeginum.

Texti: GSÍ