Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 7. 2013 | 12:30

Evróputúrinn: Anders Hansen á högg marsmánaðar

Það var frábær örn danska kylfingsins Anders Hansen á Maybank Malaysian Open sem var valið högg marsmánaðar á Evrópumótaröðinni.

Höggið hlaut 31% atkvæða í netkosninga og hafði þar með betur en högg Liang Wenchong frá Kína og Ítalans Edoardo Molinari.

Töfrastund Hansen kom þegar á 1. hring Maybank Malaysian Open í Kuala Lumpur Golf and Country Club eftir að hann ýtti boltanum til hægri í kargann á 2. holu og átti eftir eftir langt aðhögg á þessari 444 yarda löngu par-4 holu.

Það vafðist þó ekki mikið fyrir Hansen sem sendi boltann inn á miðja flöt og beint ofan í holu fyrir glæsierni!

Hansen lauk síðan keppni í 3. sæti á mótinu, sem er besti árangur hans á þessu keppnistímabili; en Thaílendingurinn Kiradech Aphibarnrat sigraði s.s. allir muna.