Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 4. 2013 | 17:45

Evróputúrinn: Aðhögg Chris Wood á 18. á Qatar Masters valið högg janúarmánuðar

Undrahögg Chris Wood að 18. flöt á Commercial Bank Qatar Masters var valið högg janúarmánaðar á Evrópumótaröðinni með 27% atkvæða golfáhangenda, sem kusu á netinu.

Wood varð að ná fugli á par-5 18. brautinni á golfvelli Doha golfklúbbsins til þess að knýja fram 3 manna umspil þ.e. við þá George Coetzee og Sergio Garcia.

En… Chris Wood bætti um betur þökk sé frábæru aðhöggi hans með 6-járninu, en hann setti boltann 4 metra frá stöng og arnarpúttið hans datt og þar með var titillinn hans og fyrsti sigurinn á Evróputúrnum!!!

Fyrir lokahringinn var Wood með 3 högga forystu og viðurkenndi eftir sigurinn að hann hefði forðast að horfa á skortöfluna allan lokahringinn, en spilafélagi hans Branden Grace hefði bent honum á mikilvægi fuglsins á lokaholunni ætlaði hann sér að knýja fram umspil.

„EFtir teighöggið, þá var flötin í góðri fjarlægð frá mér fyrir 6-járnið þannig að mér fannst ég hafa efni á að reyna við það,“ rifjaði Wood upp.

„Branden (Grace) sagði við mig „Beint á pinna“ og það sagði mér að ég þyrfti á erni að halda til að sigra; jafnvel þó ég vissi það ekki almennilega þá, þá var ég bara með tilfinningu og það er ótrúlegt að mér hafi tekist að túlka þetta rétt.“

„….. ég var bara með það að baka til í kollinum að sveifla og alveg sama hvernig tilfinningin er bara treysta sveiflunni, vera skuldbundinn henni og ná góðu höggi þarna.“