Ragnheiður Jónsdóttir | október. 8. 2013 | 12:00

Evrópumótaröðin: Henrik Stenson er kylfingur mánaðarins!

Svíinn Henrik Stenson hefir verið útnefndur kylfingur mánaðarins á Evrópumótaröðinni 2. mánuðinn í röð.

Hinn 37 ára Stenson hefir átt ár sem hann mun ekki gleyma í bráð, en hann hefir tvöfaldað áunnið verðlaunafé á ferli sínum á s.l. 12 mánuðum og er þar að auki kominn í 4. sæti heimslistans.

Það er einkum sigur Stenson í Tour Championship, sem og það að hafa verið efstur á  FedExCup stigalistanum, sem gerðu það að verkum að hann tvöfaldaði allt sem hann hefir unnið sér inn á ferlinum.

Stenson er fyrsti Norðurlandabúinn frá því að landa hans Robert Karlsson tókst það 2008 til þess að vera útnefndur Leikmaður mánaðarins á Evrópumótaröðinni tvo mánuði í röð.

Stenson hefir viðurkennt að þetta hafi verið annasamt ár fyrir hann, þar sem hann hafi oft verið upp í lofti og hann lét í ljós gleði yfir heiðrinum að hafa annan mánuðinn í röð verið valinn leikmaður mánaðarins á Evrópumótaröðinni.

„Allur þessi árangur er langt umfram það sem ég hefði getað ímyndað mér,“ sagði Stenson. „Frá því á Opna skoska hefir þetta verið ótrúlegt. Ég er orðlaus en mjög ánægður.“