Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 14. 2012 | 18:55

Evrópa leiðir í Royal Trophy

Lið Evrópu og Asíu hófu í dag keppni um Royal Trophy  í Brunei. Eftir daginn leiðir lið Evrópu með 3 1/2 vinning gegn 1/2 vinningi liðs Asíu.

Stjörnur dagsins voru sænski kylfingurinn Henrik Stenson og Spánverjinn Gonzalo Fernandez-Castaño, sem voru 8 undir pari og unnu Ryo Ishikawa frá Japan og Bae Sang-moon frá Suður-Kóreu 5 & 4.

Ítölsku bræðurnir Edoardo og Francesco Molinari unnu leik sinn gegn  Ashun Wu frá Kína og Yoshinori Fujimoto frá Japan 2 & 1, og Þjóðverjinn Marcel Siem og Belginn Nicolas Colsaerts báru sigurorð af Indverjanum Jeev Milkha Singh og Kiradech Aphibarnrat  frá Thailandi á lokaflötinni.

Svo virtist sem um algert burst væri að ræða þar til spilandi fyrirliðinn José Maria Olázabal og landi hans Miguel Ángel Jiménez urðu að sætta sig við að skilj jafnir gegn  Y E Yang og K T Kim frá Suður-Kóreu.

Leikar halda áfram í fjórbolta á morgun og tvímenningi á sunnudaginn.