Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 18. 2012 | 17:15

Evróputúrinn: Julien Quesne með 1. sigur sinn á Evrópumótaröðinni

Það var Frakkinn  Julien Quesne sem vann á Open de Andalucia Costa del Sol og þar með 1. sigur sinn á Evrópumótaröðinni. Julien er fæddur 16. ágúst 1980 í Le Mans í Frakklandi og því 31 árs. Julien er búinn að vera atvinnumaður frá árinu 2003 og spilaði fyrst á Alps Tour. Síðan komst hann á Challenge Tour 2005, þar sem hann á að baki 2 sigra: í Trophée du Golf de Genève í Sviss á 29 ára afmælisdaginn 16. ágúst 2009 og síðan vann hann í fyrra á Allianz Open de Lyon. Alls hefir Julien sigrað 6 sinnum sem atvinnumaður.

Open de Andalucia Costa del Sol er sem segir 1. sigur Julien á Evrópumótaröðinni. Julien átti frábæran hring upp á 64 högg í dag, sem hinir áttu bara ekkert svar við. Alls spilaði Julien á -17 undir pari í mótinu, samtals 271 höggi (68 72 67 64).

Í 2. sæti varð ítalski strákurinn frá Verona, Matteo Manassero, 2 höggum á eftir Julien á samtals -15 undir pari, 273 höggum (64 73 68 68).

Í 3. sæti varð heimamaðurinn, Edoardo de la Riva, á samtals -14 undir pari, 274 höggum (67 69 68 70) og í 4. sæti var David Lynn frá Englandi á samtals -13 undir pari.

Hennie Otto frá Suður-Afríku og Raphaël Jacqulin frá Frakklandi deildu 5. sætinu á -12 undir pari hvor.

Stóru nöfnin voru neðar t.d. var gestgjafi mótsins, Miguel Angel Jiménez  gestrisinn og nældi sér „bara“ í 7. sætið, sem hann situr í ásamt þeim 3 sem spiluðu á -11 undir hver. Edoardo Molinari deilir 11. sætinu ásamt 4 öðrum m.a. Simon Khan frá Englandi, sem búinn var að standa sig svo vel framan af mótinu.

Til þess að sjá úrslit á Open de Andalucia smellið HÉR: