Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 19. 2011 | 23:15

Ernie Els gæti misst af Masters í fyrsta sinn síðan 1994

Ernie Els og Retief Goosen fara inn í 2012 keppnistímabilið án nokkurrar tryggingar að þeir fái að spila á Masters.

Ljóst var hverjir hlytu keppnisrétt á Masters í dag, síðustu opinberru mótaviku í golfinu um allan heim. Meðal þeirra krítería til þess að hljóta boð er að vera meðal efstu 50 á heimslistanum í lok árs.

Maðurinn með mjúku sveifluna, Ernie Els, sem hefir hlotið marga hjartabresti í Augusta National, féll í 56. sætið á listanum. Els hefir átt keppnisrétt á Masters á hverju ári frá upphafi ferils síns 1994. Goosen, sem sigrað hefir tvívegis á Opna bandaríska risamótinu er s.s. Golf 1 greindi frá fyrr í dag í 53. sæti

Jim Furyk rétt náði inn á Masters, sem fram fer 5.-8. apríl 2012, en hann er í 50. sæti heimslistans, en Furyk hóf leik á árinu í 5. sæti heimslistans.

Aðrir sem komust inn á Masters eru m.a. Ian Poulter, Paul Casey, Alvaro Quiros, K.T Kim, Simon Dyson, Sang-moon Bae, Rickie Fowler, Francesco Molinari, Miguel Angel Jimenez og Gonzalo Fernandez-Castano.

Els og Goosen geta enn náð inn á Masters með því að sigra mót á PGA TOUR áður en Masters hefst eða með því að verða í 50. sæti á heimslistanum, viku áður en Masters hefst.

Aðrir sem berjast um að fá að spila á Masters eru m.a. Ryo Ishikawa (nr. 51); Ben Crane (nr. 54), Ryan Moore (nr. 57); Matteo Manassero (nr. 58) og Robert Allenby (nr. 59). Enn neðar eru Anthony Kim (nr. 75) og Camilo Villegas (nr. 89).

Þeir sem keppa á Masters á næsta ári eru a.m.k. 91 kylfingur, en þátttakendafjöldinn byggist m.a. á því hversu margir af fyrri sigurvegurum kjósa að fá að keppa. Masters er minnsta mótið af risamótunum og klúbburinn kýs að ekki fleiri en 100 kylfingar fái að tía upp.

Fyrir ári síðan var fjöldi keppanda á þessum tíma líka 91 en þeir urðu 99 þegar upp var staðið. Í síðasta sinn þegar þátttakendafjöldi í Masters fór yfir 100 var árið 1966, þegar keppendur voru 103.

Heimild: PGA TOUR