Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 29. 2012 | 10:00

Er slæmu gengi Rory McIlroy í golfinu að undanförnu Caroline að kenna?

Í golffréttamiðlum hefir mikið verið spáð og spekúlerað hvað valdið geti slæmu gengi Rory McIlory á golfvellinum upp á síðkastið.  Hann er nú dottinn af hásæti sínu, sem nr. 1 á heimslistanum þessa vikuna niður í 2. sætið og hefir Luke Donald heldur betur náð að auka bilið milli þeirra eftir sigurinn í Wentworth Club í Surrey, á Englandi nú um helgina… þar sem Rory náði ekki einu sinni niðurskurði, heldur komst auk þess aðeins í fréttirnar fyrir að slá á áhorfanda og vera með kylfukast á andartaki vonbrigða og gremju á BMW PGA Championship.

Nú þegar bakslag er komið í leik Rory er hann dreginn upp úr háði á sumum miðlum fyrir að hafa sagst vera besti kylfingur í heimi, nokkuð sem hann sagði aldrei. Það sem Rory sagði hins vegar var að hann tryði því að dag einn gæti hann sigrað hvern sem væri … sem vel getur átt eftir að rætast.

Rory McIlroy og Caroline Wozniacki í Kína, 1. nóv. 2011.

Sumir telja að ástæðuna fyrir slöku gengi Rory á golfvellinum megi finna í kærestu kappans, dönsku tennisstjörnunni Caroline Wozniacki, en Rory fylgir henni hvert fótmál og flýgur þangað sem hún er…. og í millitíðinni sitja æfingar hjá honum sjálfum á hakanum, fyrir utan hversu þreytandi allur þeytingurinn er. Þetta tvennt þreytu og æfingaleysi Rory vilja sumir kenna Caroline um.

Caroline, fyrrum nr. 1 í kvennatennisnum hefir sjálf átt í vandræðum, t.a.m. dró hún sig úr tennismóti í Róm fyrir skemmstu vegna meiðsla og hver flaug til hennar til að hugga hana og fara með henni í skoðunarferðir um Róm? ….. Ja, hver annar en Rory. Myndir af þeim skötuhjúum í Róm birtust á Twitter fyrir skemmstu.

Í mörgum miðlum hefir verið haft orð á að Rory eigi nú þegar 11 milljónir punda (u.þ.b. 2 milljarða íslenskra króna) á bankabókinni og vilji njóta lífsins aðeins með kærestunni, sem sjálf er ekki á flæðiskeri stödd með 8 milljónir punda. Á meðan situr golfið á hakanum…

Þessi mynd birtist af Rory og Caroline fyrir framan Eiffelturninn í París undir fyrirsögninni: „Ganga æfingarnar vel, Rory?" á einum íþróttamiðlinum.

Á  ProSportsMedia.com er Rory talinn næstbest markaðssetjanlegi íþróttamaður heims á eftir brasilíönsku fótboltastjörnunni Neymar. Til samanburðar mætti geta þess að Caroline er aðeins 13. best markaðssetjanlegi íþróttamaðurinn og Tiger sá 47. Sem par geta Rory og Caroline huggað sig við að þau eru heimsins best markaðssetjanlega íþróttaparið, skv. ProSportsMedia.com.

Svo er annað. Sagt er að eftir Wentworth sé Rory nú á stífum æfingum og ætli sér að koma ferskur til leiks í Dublin, Ohio þar sem Memorial mót Jack Nicklaus fer fram nú í vikunni.  Og það skyldi enginn afskrifa Rory á næsta risamóti, þar sem hann á titil að verja.  Það má taka undir með pabba Rory, sem sagði eftir uppákomuna í Wentworth: „Það kemur dagur eftir þennan. Þetta eru ekki Ólympíuleikarnir!“

Heimild: byggt á grein í Belfast Telegraph