Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 4. 2013 | 14:00

EPD: Þórður Rafn úr leik á Open Al Maaden mótinu í Marokkó

Þórður Rafn Gissurarson, GR, spilaði í dag annan hring sinn  á Open Al Maaden mótinu, sem er hluti af  þýsku EPD-mótaröðinni, en mótið hófst í gær.  Spilað er á golfvelli Almaaden golfstaðarins í Marakesch, Marokkó.

Þátttakendur í mótinu eru 120.

Þórður Rafn lék í gær á pari, 72 höggum; fékk 3 fugla, 12 pör og 3 skolla og var í 60. sæti eftir 1. keppnisdag.

Í dag gekk verr, en Þórður Rafn var á 5 yfir pari, 77 höggum og er nokkuð ljóst á þessari stundu að hann kemst ekki í gegnum niðurskurð, þótt nokkrir eigi eftir að ljúka leik, en sem stendur er niðurskurður miðaður við 2 undir pari.

Þjóðverjinn Daniel Wünsche, sem var efstur eftir 1. dag á 64 glæsihöggum, hrundi niður skortöfluna í dag eftir hring upp á 4 yfir pari, 76 höggum.  Hann er þó samtals á 4 undir pari og á góðan möguleika á að komast í gegnum niðurskurð.

Í efsta sæti sem stendur er annar Þjóðverji, Guillaume Wätremez, en hann er búinn að spila á samtals 10 undir pari, 134 höggum (67 67).  Staðan gæti þó enn breyst nokkuð því nokkrir eiga eftir að ljúka leik

Til þess að sjá stöðuna á Open Al Maaden eftir 1. dag SMELLIÐ HÉR: