John Daly
Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 10. 2012 | 08:45

PGA: Enn kemur John Daly á óvart á PGA Championship

John Daly sýndi golfleik í gær á 1. degi PGA Championship, sem líktist þeim sem hann lék þegar hann vann PGA risamótið 1991 (reyndar annað af tveimur risamótum sem Daly hefir unnið því hann vann líka á Opna breska 1995). Það kom verulega á óvart á sínum tíma að Daly skyldi takast að sigra PGA Championship (átti 3 högg á gamla Bruce Lietzke).  Og enn kom leikur hans í gær mörgum á óvart.

Lykilatriði í leik hans, sem hann er svo þekktur fyrir, voru öll á sínum stað í gær þegar hann skilaði skori upp á 68 högg eða 4 undir pari: löngu drævin, en Daly er mikil sleggja og jafnvel stutta spilið í kringum greenið.  Hann er aðeins 2 höggum á eftir forystumanni 1. dags Svíanum Carl Pettersson og gæti blandað sér í baráttuna um 1. sætið.  Væri það ekki mest óvænti atburður ársins í golfinu ef Daly stæði uppi sem sigurvegari á PGA Championship?

Daly er þekktur fyrir að hressa upp á golfmót og koma á óvart … með allskyns uppákomum og hneykslum s.s. að ganga úr móti, mæta drukkinn, slá golfbolta af bjórdósum eða kasta kylfum.

Hann kom öllum á óvart í gær … með góðu spili…  sumum meira en öðrum. Tiger er einn þeirra sem er ekkert hissa á Daly, en þeir tveir spiluðu þegar Tiger var unglingur og Daly, mun þekktari en Tiger árið 1989 í Texarkansa Country Club. Þar tókst Daly rétt að merja Tiger og vingaðist við unglinginn.  „Ég hef alltaf verið í aðdáendahópi hans og vinur“ sagði Tiger eftir hring Daly í gær sem margir voru undrandi á. Tiger veit manna best um hæfileika Daly á golfsviðinu.

En er þetta bara leiftur af gömlum frægðartöktum hjá Daly? Spurningin er hvort hinum 46 ára Daly takist að sýna svona leik 4 daga í röð.

Daly hefir engar áhyggjur af því að hann haldi ekki áfram að spila gott golf og ganga vel. „Ef ég fer héðan vitandi að ég hafi spilað besta golfið mitt, þá er það, það sem öllu skiptir,“ sagði hann. „Og þegar litið er á hvernig ég hef verið að spila, þá langar mig ekkert til þess að verða of hress eða óhress með leik minn.“ Daly að leitast eftir að halda jafnvægi? …. hann hættir aldrei að koma óvart og sýna á sér nýjar hliðar!

Það væri svo sannarlega gaman ef honum tækist að sigra mótið!!!