Ragnheiður Jónsdóttir | september. 20. 2018 | 22:00

EM piltalandsliða: Ísland 1 sigri frá sæti í efstu deild

Ísland mætir liði Portúgals í undanúrslitum í 2. deild Evrópumóts piltalandsliða. Ísland endaði í 2. sæti í höggleiknum og er einum sigri frá því að tryggja sér sæti á meðal þeirra bestu á EM á næsta ári.

Ungverjaland, Ísland, Noregur, Pólland, Portúgal, Slóvakía, Slóvenía og Tyrkland hófu leik í 2. deild Evrópumóts piltalandsliða miðvikudaginn 19. september. Keppnin fer fram á Pannonia vellinum í Búdapest í Ungverjalandi.

Fyrstu tvo keppnisdagana (miðvikudaginn og fimmtudaginn) var leikinn höggleikur og síðan tekur við holukeppni föstudag og laugardag. Alls eru þrjú sæti í boði í efstu deild EM á næsta ári. Jussi Pitkänen, afreksstjóri GSÍ, segir að markmið Íslands sé að komast upp í efstu deild.

Nánar um mótið með því að SMELLA HÉR: 

Á 2. keppnisdegi endaði íslenska liðið  í 2. sæti í höggleiknum á -9 samtals og leikur gegn liði Portúgals í undanúrslitum í A-riðli. Noregur sigraði með nokkrum yfirburðum í höggleikskeppninni á -16 samtals og leikur gegn Slóveníu í undanúrslitum.

Ísland mætir eins og áður segir liði Portúgals í undanúrslitum. Sigurliðið úr þeim leik er öruggt með sæti í efstu deild. Tapliðin í undaúrslitaleikjunum eiga enn möguleika á að komast upp um deild – en liðið sem sigrar í leiknum um 3. sætið kemst upp ásamt liðinum sem keppa til úrslita um sigurinn í deildinni.

Í undanúrslitaleiknum gegn Portúgal er byrjað á því að leika tvo fjórmenninga fyrir hádegi. Tveir leikmenn úr sama liði liði skipast á um að slá einum bolta til skiptis út holuna í holukeppni.

Fjórmenningslið Íslands verða þannig skipuð:
Viktor Ingi Einarsson – Dagbjartur Sigurbrandsson
Kristófer Karl Karlsson – Sigurður Bjarki Blumenstein

Eftir hádegi verða fimm tvímenningar þar sem að einn keppandi úr hvoru liði mætast í holukeppni.
Lið Íslands verður þannig skipað:
Ingvar Andri Magnússon
Sverrir Haraldsson
Viktor Ingi Einarsson
Dagbjartur Sigurbrandsson
Sigurður Bjarki Blumenstein

Lokastaðan í höggleiknum.

1. Noregur -16
2. Ísland -9
3. Portúgal -5
4. Slóvakía +3
5. Slóvenía +24
6. Pólland +34
7. Ungverjaland +48
8. Tyrkland +76

4. sæti: Viktor Ingi Einarsson, 71-68 (-5)
9. sæti: Sigurður Bjarki Blumenstein 70-71 (-3)
12. sæti: Dagbjartur Sigurbrandsson, 68-75 (-1)
19. sæti: Sverrir Haraldsson, 68-78 (+2)
19. sæti: Kristófer Karl Karlsson, 70-78 (+2)
28. sæti: Ingvar Andri Magnússon, 79-72 (+7)