Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 6. 2012 | 19:50

Einn efnilegasti kylfingur Evrópu keppir á Íslandi

Undankeppni fyrir Evrópumót karlalandsliða, European Challenge Troyphy mótið, fer fram í næstu viku á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði. Í mótinu leika átta karlalandslið en auk Íslands leika Belgía, Holland, England, Portúgal, Rússland, Serbía og Slóvakía.

Hollendingurinn Daan Huizing er forgjafalægsti kylfingurinn í mótinu en hann er með +7,0 í forgjöf. Hann er talinn vera einn efnilegasti kylfingur Evrópu um þessar mundir og ekki af ástæðulausu. Huizing, sem er tvítugur að aldri, er í fjórða sæti áhugaheimslistans og vann sex áhugamannamót á síðasta ári. Í ár hefur Huizing fylgt eftir góðu gengi og setti met í St. Andrews Trophy Links mótinu fyrir skömmu þegar hann sigraði á samtals 23 höggum undir pari. Hann vann mótið með 14 högga mun.

Huizing hefur tvívegis leikið á Evrópumótaröðinni en í bæði skiptin var það á KLM Open mótinu sem fram fer í Hollandi. Hann komst í gegnum niðurskurðinn í mótinu á síðasta ári. Það er tilvalið fyrir íslenska golfáhugamenn að mæta til að fylgjast með Huizing spreyta sig gegn íslensku strákunum á Hvaleyrarvelli 12.-14. júlí næstkomandi. Englendingar senda einnig sterkt landslið til leiks og er aldrei að vita nema að í því hópi leynist kylfingur sem gæti orðið næsta stjarna Englendinga í golfinu.

Þrjá efstu þjóðirnar í mótinu komast áfram í Evrópumótið sem fram fer í Silkeborg í Danmörku á næsta ári. Leikinn er höggleikur í mótinu þar sem fimm bestu skor af sex telja. GSÍ hefur opnað heimasíðu sem hýsir allar upplýsingar um mótið. Þar verður einnig hægt að finna lifandi skor frá mótinu meðan á keppni stendur.

http://emcht.golficeland.org/

Heimild: golf.is