Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 22. 2013 | 16:45

Eimskipsmótaröðin hefst næstu helgi

Loksins er farið að glita í sumarið hjá okkur kylfingum eftir frekar napurt vor. Hér á sunnanverðu landinu koma golfvellirnir nokkuð vel undan vetri, þó svo nokkuð sé í land að þeir séu fullgrónir. Á Norðurlandi er staðan verri og ennþá eru nokkrir golfvellir undir snjó og því miður líkur á að eitthvað verði um kalskemmdir á því landsvæði.

En kylfingar eru óþreyjufullir eftir að hefja keppnistímabilið og um síðustu helgi hófst Íslandsbankamótaröð unglinga og fjölmörg opin mót hafa nú farið fram. En nú er komið að mótum þeirra bestu.

EIMSKIPSMÓTARÖÐIN

Mótaröð bestu kylfinga á Íslandi, Eimskipsmótaröðin hefst n.k. föstudag 24. maí á Garðavelli á Akranesi.Öll mótin á Eimskipsmótaröðinni eru að lágmarki 54 holur og á þessu fyrsta móti verða leiknar 18 holur föstudag og laugardag og síðan er niðurskurður fyrir lokahringinn sem leikinn er á sunnudegi. Ágætt skráning er í fyrsta mót ársins og greinilegt að mikil spenningur og eftirvænting er meðal kylfinga að hefja leik.

Eins og undanfarin ár koma öflug fyrirtæki til samstarfs við Golfsambandið til að gera mótahald sambandsins sem öflugast. Eimskipafélag Íslands heldur áfram að styðja við mótaröð þeirra bestu eins og nafnið á mótaröðinni ber með sér og jafnframt eru styðja eftirfarandi fyrirtæki við mótaröðina; Ölgerðin, Securitas, Síminn og KPMG.

EGILSGULL MÓTIÐ, EIMSKIPSMÓTARÖÐIN (1) 24.-26. maí

Garðavelli á Akranesi. Golfklúbburinn Leynir hefur nú tekið að nýju við rekstri vallarins, en samningurinn við Golfklúbb Reykjavíkur rann út á síðasta ári. Garðavöllur er í mjög góðu standi og er alltaf einn af þeim völlum sem eru hvað fyrst tilbúnir á vorin.

SECURITASMÓTIÐ, EIMSKIPSMÓTARÖÐIN (2) 7.-9. júní

Vestmannaeyjavöllur. Hefð er fyrir því að fara snemma sumars til Vestmannaeyja og er enginn undantekning á því í sumar. Völlurinn er syðsti golfvöllur landsins og orðinn keppnishæfur snemma sumars. Golfklúbbur Vestmannaeyja fagnar á þessu ári að 75 ár eru liðin frá stofnun klúbbsins. Það má geta þess að á Vestmannaeyjavelli er að finna elstu golfholur landsins, en nokkrar holur innst í Herjólfsdal eru upprunnalegu holurnar sem leiknar voru.

EIMSKIPSMÓTARÖÐIN (3) 21.-23. júní, ÍSLANDSMÓTIÐ Í HOLUKEPPNI

Íslandsmótið í holukeppni fer fram á Hamarsvelli í Borgarfirði í umsjón Golfklúbbs Borgarness. Þetta er í fyrsta skipti sem mót á mótaröðinni fer fram á Hamarsvelli og verður fróðlegt að sjá hvernig bestu kylfingum landsins gengur á vellinum, en miklar framkvæmdir hafa verið á vellinum á liðnum árum til að gera hann hæfan til að taka við slíku móti.

EIMSKIPSMÓTARÖÐIN (4) 25.-28. júlí, ÍSLANDSMÓTIÐ Í GOLFI, EIMSKIPSMÓTIÐ

Hápunktur hvers golfsumars er Íslandsmótið í höggleik, eða Íslandsmótið í golfi eins og við nefnum það og verður það haldið á Korpúlfsstaðavelli í umsjón Golfklúbbs Reykjavíkur. Þetta er í fyrsta skipti sem Íslandsmótið fer fram á Korpúlfsstaðavelli og verður spennandi að sjá okkar bestu kylfinga glíma við nýjar og krefjandi aðstæður. Miklar framkvæmdir hafa verið við völlinn á liðnum árum og hann stækkaður í 27 holur og verða nokkrar af nýju holunum hluti keppnisvallarins. Að venju verður sýnt beint frá Íslandsmótinu í  beinni sjónvarpsútsendingu og er gert nánari grein fyrir þeirri tilhögun hér fyrir neðan.

 

SÍMAMÓTIÐ, EIMSKIPSMÓTARÖÐIN (5) 9.-11. ágúst

Fimmta mótið á Eimskipsmótaröðinni fer fram á Leirdalsvelli í umsjón Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar og verður mótið ágæt prófraun á völlinn fyrir næsta ár, en  Íslandsmótið í höggleik verður haldið á Leirdalsvelli á næsta ári, en þá eru 20 liðinn frá stofnun Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar.

EIMSKIPSMÓTARÖÐIN (6) 31. ágúst  – 1. september

Lokamótið á Eimskipsmótaröðinni, fer fram á Urriðavelli í umsjón Golfklúbbsins Odds. Urriðavöllur hefur fest sig í sessi sem einn af bestu völlum landsins og er mjög vinsæl meðal kylfinga. Að loknu þessu móti skýrast línurnar og liggur fyrir hverjir komast í lið Reykjavíkurúrvals og lið Landsbyggðar en efstu kylfingar á Eimskipsmótaröðinni koma til með að skipa liðin.

KPMG BIKARINN

KPMG Bikarinn fer að þessu sinni fram á Hólmsvelli í Leiru hjá Golfklúbbi Suðurnesja, en fyrirkomulag Bikarsins er liðakeppni milli Reykjavíkurúrvalsins á móti liði landsbyggðarinnar. Nokkrar breytingar verða gerðar á Bikarnum frá síðasta ári sem kynntar verða síðar, en efstu menn á Eimkskipsmótaröðinni vinna sér þátttökurétt í Bikarnum.

LIFANDI SKOR Á EIMSKIPSMÓTARÖÐINNI

Golfsambandið heldur áfram að færa áhugasömum kylfingum skor af Eimskipsmótaröðinni og verður skor keppenda uppfært á 3 holu fresti í öllum mótum sumarsins og verða skorið skráð í IPAD, auk þess sem skor verður uppfært holu fyrir holu á lokadegi Íslandsmótsins.

 

GOLF Í SJÓNVARPI

Öllum mótum á Eimskipsmótaröðinni verður gerð skil í sérstökum þáttum á RÚV í umsjá Gunnars Hanssonar og Jóns Júlíusar Karlssonar og Þá verður Íslandsmótinu í golfi sjónvarpað beint frá Korpúlfsstaðavelli seinni tvo daganna.

ÖNNUR VERKEFNI

Að venju verða fjölmörg önnur mót á vegum GSÍ og má þar t.d. nefnda Sveitakeppni GSÍ, en keppt er í 5. deildum í karlaflokki og 2. deildum í kvennaflokki, auk þess sem keppt er í unglingaflokkum og flokkum eldri kylfinga. Þá eru haldin Íslandsmót í flokki 35 ára og eldri, en það fer fram á Þverárvelli í Fljótshlíð og Íslandsmót eldri kylfinga 55 ára og eldri karla og 50 ára og eldri kvenna fer fram á Strandarvelli á Hellu.

Afrekskylfingar verða líka á ferð og flugi í sumar og stefnan er sett á að karlalandsliðið verði meðal þriggja efstu liða á Challenge Trophy sem fram fer í Tékklandi í sumar, en liðið hafnaði eins og kunnugt er í fjórða sæti í fyrra þegar mótið fór fram hér á landi. Eitt af þremur efstu sætunum tryggir okkur sæti meðal A-þjóða 2014.

Stúlkurnar taka þátt í Evrópukeppni kvenna sem fram fer á Englandi, en ekki er forkeppni í kvennaflokki. Góður árangur okkar kvenkylfinga í háskólagolfinu í Bandaríkjunum gefa okkur vonir um góðan árangur á því móti.

Auk þessara móta munu afrekskylfingar okkar taka þátt í ýmsum einstaklingsmótum erlendis s.s. Evrópukeppni yngri kylfinga, Evrópukeppni einstaklinga svo eitthvað sé nefnt.