Ragnheiður Jónsdóttir | september. 3. 2012 | 09:30

Eimskipsmótaröðin (6): Fannar Ingi – 13 ára strákur varð í 7.-8. sæti á Síma mótinu! – Gott gengi ungra íslenskra kylfinga

Það sem einkenndi Síma mótið, sem lauk nú um helgina, öðru fremur umfram dræma þátttöku vegna veðurs og fjarveru ýmissa af okkar bestu kylfingum, vegna þátttöku þeirra í ýmsum mótaröðum eða háskóla sem byrjaðir eru að nýju er hversu ungir þátttakendur þessa síðasta móts Eimskipsmótaraðarinnar voru. Engu að síður voru 51 af bestu karlkylfingum og 13 af bestu kvenkylfingum landsins sem kepptu.

Sumir voru að stíga sín fyrstu spor á mótaröð þeirra bestu þ.á.m. Henning Darri Þórðarson, GK, sem nýorðinn er 14 ára.  Hann hefir aldeilis slegið í gegn í strákaflokki á Unglingamótaröð Arion banka nú í ár.

Henning Darri Þórðarson, GK. Mynd: Golf 1.

Annar þátttakandi, sem var að stíga sín fyrstu spor á Eimskipsmótaröðinni var Fannar Ingi Steingrímsson, GHG. Hann er aðeins  13 ára  og var sá yngsti sem þátt tók í mótinu. Hann náði þeim stórglæsilega árangri að verða meðal efstu 10, þ.e. deildi 7. sæti með Alfreð Brynjar Kristinssyni, GKG.   Og það við þær erfiðu veðuraðstæður sem voru laugardaginn!!!  Fannar Ingi spilaði á samtals 12 yfir pari, 225 höggum (76 74 75).

Ragnhildur Kristinsdóttir, GR,  var yngst kvenkylfinga sem þátt tók, 14 ára. Hún hefir leikið í telpuflokki á Unglingamótaröð Arion banka nú í sumar.  Hún náði líka þeim glæsilega árangri að verða í 2. sæti í kvennaflokki. Ragnhildur lék á 19 yfir pari, 232 höggum (80 75 77) og var aðeins 4 höggum á eftir atvinnumanninum Tinnu Jóhannsdóttur í GK, sem sigraði.  Glæsilegt hjá þessari 14 ára telpu úr Golfklúbbi Reykjavíkur!!!

Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, gengur yfir á 15. flöt í Grafarholtinu. Hún varð í 2. sæti aðeins 14 ára á síðasta móti Eimskipsmótaraðarinnar 2012, Síma mótinu. Glæsilegt!!! Mynd: Golf 1

Miklir framtíðarkylfingar þar á ferð í þeim Ragnhildi, Fannari Inga og Henning Darra!!!