Ingi Rúnar og Birgir Leifur á 3. degi Íslandsmótsins í höggleik 2013. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 28. 2013 | 15:55

Eimskipsmótaröðin (4): Birgir Leifur leiðir í einvíginu við Harald Franklín eftir 12 holur

Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, er í forystu á Íslandsmótinu í höggleik þegar 12 holur hafa verið spilaðar í karlaflokki.

Baráttan um Íslandsmeistaratitilinn er hreint einvígi milli heimamannsins Haraldar Franklín Magnús, GR, núverandi Íslandsmeistara í höggleik 2012 og fjórfalds Íslandsmeistara Birgis Leifs.

Þegar 12 holur hafa verið spilaðar er Birgir Leifur á samtals 10 undir pari og er búinn að vinna upp 2 högga forskot sem Haraldur Franklín hafði fyrir lokahringinn með 3 glæsifuglum á par-3 3. braut Sjó-lykkju Korpunnar, par-5 7. braut Sjó-lykkjunnar og par-3 9. braut Sjó-lykkjunnar. Tveir fuglar á par-þristum á fyrri níu. Flott hjá Birgi Leif!!!

Haraldur Franklín er aðeins 1 höggi á eftir Birgi og baráttan gríðarleg.  Hann er eflaust undir mikilli pressu þegar hann sér Birgi Leif síga svona á forskot sitt. Það hefir eflaust ekki verið auðvelt að fá skolla á par-3 3. braut Sjó-lykkju Korpunnar eins og Haraldur Franklín gerði og sjá Birgi Leif fá fugl en þá þegar á 3. braut var allt jafnt milli þeirra.

Haraldur fékk síðan fugl á par-5 7. brautinni, líkt og Birgir Leifur og annan fugl á par-4 10. brautinni (1. braut Ár-lykkjunnar, sem mörgum finnst nú e.t.v. ekki léttasta braut Korpunnar). Á 10. braut náði Haraldur því að jafna við Birgi Leif en féll 1 högg aftur fyrir á par-4 12. brautinni (3. braut Ár-lykkju Korpunnar), þar sem hann fékk skolla, en Birgir Leifur par.

Æsispennandi einvígi þetta milli Birgis Leifs og Haraldar Franklín!

Í 3. sæti er Þórður Rafn Gissurarson, GR, á samtals 4 undir pari, eftir 12 holur.

Meðan ofangreint var ritað hafa kapparnir spilað aðra  holu 13. holuna  en staðan er óbreytt Birgir Leifur er í forystu á 1 högg á Harald Franklín.