Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 5. 2014 | 08:00

Eimskipsmótaröðin 2014 (3): Næsta mót er Símamótið í Borgarnesi

Næsta mót á Eimskipsmótaröðinni fer fram á Hamarsvelli í Borgarnesi og er skráningarfrestur í mótið til 9. júní n.k.

Símamótið fer fram dagana 13.-15. júní 2014 á sama tíma og Opna bandaríska á Pinehurst no. 2.

Símamótið er mikilvægt mót fyrir okkar bestu kylfinga enda styttist í Íslandsmótið í holukeppni og fá efstu 32 kylfingar á Eimskipsmótaröðinni að loknum 3 mótum keppnisrétt á Íslandsmótinu í holukeppni.

Þá styttist í Evrópukeppnir landsliða og mun Úlfar Jónsson landsliðsþjálfari fylgjast grannt með gangi mála á mótinu og í framhaldinu mun hann tilkynna EM-liðin.

Mótanefnd GSÍ skoðaði þann möguleika að víxla mótum og færa Símamótið á Garðavöll og spila í Borgarnesi í ágúst, en horfið var frá þeirri ákvörðun og verður leikið á Hamarsvelli í Borgarnesi eins og fyrirhugað var í upphaflegri mótaskrá.