Eimskip, mikill styrktaraðili golfs á Íslandi. Mynd: Golf 1.
Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 10. 2015 | 12:00

Eimskipsmótaröðin 2015 (3): Góð þátttaka í 3. mótinu

Góð þátttaka er á Símamótinu á Eimskipsmótaröðinni sem hefst á föstudaginn á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Alls eru 93 karlar skráðir og 27 konur sem er fjölmennasta mót tímabilsins á Eimskipsmótaröðinni. Símamótið er þriðja mót tímabilsins og verða leiknar 54 holur á þremur keppnisdögum. Niðurskurður verður eftir annan hring en þá komast áfram 63 efstu úr karlaflokki og 21 efstu úr kvennaflokki. Ef keppendur eru jafnir í 63. sæti í karlaflokki eða 21. sæti í kvennaflokki þá skulu þeir báðir/allir halda áfram.

Það er að miklu að keppa á Símamótinu þar sem að þetta er síðasta tækifærið fyrir keppendur að laga stöðu sína á stigalistanum fyrir Íslandsmótið í holukeppni sem fram fer á Akureyri í næstu viku. Stöðuna á stigalistanum fyrir Íslandsmótið í holukeppni má sjá á myndinni hér fyrir neðan.

Rástímarnir fyrir fyrsta keppnishringinn eru tilbúnir og má sjá með því að SMELLA HÉR:

Stigameistarar Eimskipsmótaraðarinnar frá því í fyrra eru báðir á meðal keppenda, Karen Guðnadóttir (GS) og Kristján Þór Einarsson (GM). Íslandsmeistararnir frá árinu 2005 og 2011 í karlaflokki verða á meðal keppenda, Heiðar Davíð Bragason (GHD) og Axel Bóasson (GK).

Í kvennaflokki vekur athygli að Ragnhildur Sigurðardóttir, sem oftast hefur fagnað stigameistaratitlinum í kvennaflokki á Eimskipsmótaröðinni, er skráð til leiks. Ragnhildur hefur níu sinnum fagnað stigameistaratitlinum – síðast árið 2008.

Andri Þór Björnsson, úr GR, sem sigraði á fyrstu tveimur mótum tímabilsins á Eimskipsmótaröðinni, verður við keppni á Opna breska áhugamannamótinu sem fram fer á Carnoustie og Panmure in Angus, í Skotlandi. Alls verða sjö íslenskir keppendur á því móti, Aron Snær Júlíusson (GKG), Gísli Sveinbergsson (GK), Guðmundur Ágúst Kristjánsson (GR), Haraldur Franklín Magnús (GR), Ragnar Már Garðarsson (GKG) og Rúnar Arnórsson (GK).