Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 30. 2015 | 21:00

Eimskipsmótaröðin 2015: Andri og Tinna sigruðu á Securitasmótinu!!!

Andri Þór Björnsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur og Tinna Jóhannsdóttir úr Keili sigruðu á Securitasmótinu á Eimskipsmótaröðinni sem lauk í Vestmannaeyjum í dag. Þetta er annar sigur Andra í röð á Eimskipsmótaröðinni en hann sigraði á Egils-Gull mótinu sem fram fór í síðustu viku á Hólmsvelli í Leiru. Andri Þór hafði betur í bráðabana en Hlynur Geir Hjartarson úr GOS varð annar í karlaflokknum.

Leiknar voru 36 holur á föstudag og keppni hófst kl. 6.00 í morgun en veðurspáin fyrir laugardaginn var með þeim hætti að veðrið átti að versna þegar líðar fór á daginn. Allar þessar spár gengu eftir og mótinu lauk rétt um hádegi.

Það var gríðarleg spenna í karlaflokknum á lokahringnum. Hlynur Geir Hjartarson úr GOS var með eitt högg í forskot á -4 á þá Andra Þór, Harald Franklín Magnús (GR) og Ragnar Má Garðarsson (GKG). Hlynur bætti fljótlega við það forskot með góðri byrjun þar sem hann fékk þrjá fugla á fyrstu fjórum holunum. Andri Þór lagaði stöðuna með þremur fuglum og var hann um tíma með forystuna á -5. Haraldur Franklín Magnús úr GR blandaði sér í baráttuna um sigurinn með þremur fuglum í röð á 14., 15., og 16. en hann tapaði höggi á þeirri 17.

Andri Þór lék lokaholuna – þá 18. á undan lokaráshópnum. Hann setti sig í vandræði í öðru högginu sem hann „sjankaði” út á 16. braut. Hann bjargaði sér með glæsibrag og setti niður pútt fyrir fugli og lauk leik á -4 samtals. Hlynur og Haraldur Franklín vissu að þeir þyrftu fugl á lokaholuna til þess að jafna við Andra. Hlynur náði því en Haraldur ekki og bráðabani var því staðreynd.

Andri setti sig í erfiða stöðu strax á 1. holu í bráðabananum. Innáhöggið á par 4 holuna endaði í glompu á meðan Hlynur var um 10 metra frá holunni eftir innáhöggið. Hlynur lék á undan og setti púttið um hálfan meter frá holunni. Andri sló upp úr glompunni en var langt frá holunni eftir það högg. Hann púttaði glæsilega og tryggði skollann – en Hlynur var í dauðafæri á að tryggja sér sigurinn. Púttið geigaði og þeir fóru því á 2. teig sem er par 3 hola í Vestmannaeyjum.

Andri Þór sló glæsilega inn á flötina með 7-járninu af um 130 metra færi gegn vindinum. Boltinn stöðvaðist í um þriggja metra fjarlægð frá holunniþ. Hlynur Geir sló of langt og átti erfitt pútt úr flatarkantinum upp hrygginn á flötinni. Púttið fór allt of langt og þrípútt var staðreynd. Andri Þór tryggði sér sigurinn með öruggu tvípútti.

Það voru krefjandi aðstæður báða keppnisdagana – en vindurinn var mun sterkari í dag á lokahringnum. Þetta gekk bara bærilega og ég er sáttur við niðurstöðuna. Ég vil þakka þjálfurunum mínum, Arnóri Snæ Finnbjörnssyni og Inga Rúnari Gíslasyni fyrir aðstoðina. Þeir eiga mikið í þessum sigri. Ég hélt að þetta væri búið eftir annað höggið á fyrstu í bráðbananum en það breyttist og ég náði að vinna þetta með góðu pari á 2. braut,“ sagði Andri Þór Björnsson úr GR eftir sigurinn.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Tinna Jóhannsdóttir kepptu um sigurinn í Eymum í dag

Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Tinna Jóhannsdóttir kepptu um sigurinn í Eymum í dag

Tinna var með tveggja högga forskot fyrir lokahringinn en þrjár Keiliskonur voru í þremur efstu sætunum. Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Anna Sólveig Snorradóttir voru með Tinnu í lokaráshópnum. Anna Sólveig féll fljótlega úr leik í keppninni um sigurinn. Guðrún Brá náði að saxa á forskot Tinnu og þegar þær höfðu leikið 14 holur á lokahringnum hafði Guðrún náð einu höggi í forskot. Hún tapaði þremur höggum á síðustu fjórum holunum á meðan Tinna gerði engin mistök og náði fjórum pörum í röð – og tryggði sér sigurinn. Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili varð önnur og Karen Guðnadóttir úr GS varð þriðja.

„Ég er ánægð með sigurinn og þetta var frekar erfitt í dag í þessum aðstæðum. Það var mikill vindur og erfitt að eiga við hann á köflum. Ég hef fengið golfgleðina á ný og ég hef sett mér markmið fyrir sumarið sem ég ætla að halda útaf fyrir mig. Mér finnst gaman að æfa á ný og þetta verður skemmtilegt sumar,” sagði Tinna en hún lék á mjög fáum mótum í fyrra á Eimskipsmótaröðinni en náði þrátt fyrir það að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í holukeppni á heimavelli sínum í Hvaleyrinni í fyrra.

1. Andri Þór Björnsson, GR (71-66-69) 206 högg -4
2. Hlynur Geir Hjartarson, GOS (65-72-69) 206 högg -4
3. Haraldur Franklín Magnús GR (71-65-71) 207 högg -3

1. Tinna Jóhannsdóttir, GK (74-71-76) 221 högg +11
2. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK (74-73-79) 226 högg +16
3. Karen Guðnadóttir, GS (79-71-77) 227 högg + 17

Heimild: GSÍ