Eimskip, mikill styrktaraðili golfs á Íslandi. Mynd: Golf 1.
Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 18. 2015 | 09:00

Eimskipsmótaröðin 2015 (6): Nýherjamótið hefst næstu helgi!

Lokamót Eimskipsmótaraðarinnar, Nýherjamótið, í golfi fer fram um helgina á Urriðavelli hjá Golfklúbbnum Oddi. Það er útlit fyrir spennandi baráttu um stigameistaratitilinn í karla – og kvennaflokki. Þetta er sjötta mótið á Eimskipsmótaröðinni .

Keilismaðurinn Axel Bóasson, Íslandsmeistari í holukeppni 2015, er efstur á stigalista Eimskipsmótaraðarinnar. Axel er með 5505.00 stig en þar á eftir kemur Kristján Þór Einarsson úr GM en hann er með 4387.50 stig. Kristján Þór hefur titil að verja en hann varð stigameistari í fyrra í fyrsta sinn. Axel hefur aldrei fagnað stigameistaratitlinum í karlaflokki.

Tinna Jóhannsdóttir úr Keili er efst í kvennaflokknum á stigalistanum á Eimskipsmótaröðinni en Karen Guðnadóttir úr GS hefur titil að verja. Það eru fjölmargir kylfingar sem eiga möguleika á að ná efsta sætinu á stigalistanum og þar má nefna að Íslandsmeistarinn í golfi 2015, Signý Arnórsdóttir úr Keili, er ekki langt á eftir Tinnu í öðru sæti stigalistans.

Leiknar verða 36 holur laugardaginn 22. ágúst og 18 holur sunnudaginn 23. ágúst.