Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 24. 2015 | 17:15

Eimskipsmótaröðin 2015 (5): Sunna m/ 4 högga forskot í hálfleik

Sunna Víðisdóttir úr GR með fjögurra högga forskot í kvennaflokki á Íslandsmótinu í golfi þegar keppni er hálfnuð á Garðavelli á Akranesi. Sunna, sem fagnaði þessum titli árið 2013 er á einu höggi undir pari vallar eftir 36 holur en Signý Arnórsdóttir (GK) og Valdís Þóra Jónsdóttir (GL) eru á +3 samtals.

Þetta var ágætt að mestu – en ég var með tvö þrípútt og tvö léleg högg. Fjórir skollar en engin stór vandamál í gangi hjá mér. Ég tók eitt víti á hringnum en það er nóg eftir og ég er bjartsýn á framhaldið,“ sagði Signý Arnórsdóttir eftir hringinn í dag.

Ég hef ekki hugmynd um hvernig staðan er og ég einbeiti mér að mínu golfi. Ég kem sterk til leiks næstu tvo daga og ég má ekki slaka á. Það getur allt gerst í framhaldinu. Ég er ekkert að stressa mig á því hvernig staðan er og ég er bara í keppni við sjálfan mig og ég ætla aldrei að gefast upp,“ sagði Sunna Víðisdóttir.

Ég var léleg á fyrri hringnum en náði að koma til baka á síðari hlutanum – en síðustu tvær holurnar voru lélegar. Það er nóg eftir af golfi og ég þarf að bæta ýmislegt í mínum leik,“ sagði Valdís Þóra Jónsdóttir sem fagnað hefur Íslandsmeistaratitlinum tvívegis, 2009 og 2012.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR hefur titil að verja á Íslandsmótinu í golfi en hún er í 5.-6. sæti þegar keppni er hálfnuð á +5. Hún er sex höggum á eftir Sunnu Víðisdóttur.

„Þetta var erfiður dagur og ég fékk ekki nóg af fuglum til þess að vega upp á móti hinu. Ég þarf að átta mig betur á hraðanum á flötunum og sumar flatirnar eru öðruvísi en þær nýju. Ég þarf að taka betur eftir þessu. Ég sé að Valdís Þóra er að pútta fast á þessum flötum sem mér hefur gengið illa að pútta og ætli ég reyni það ekki í framhaldinu,“ sagði Ólafía Þórunn.

1. Sunna Víðisdóttir, GR 143 högg (71-72) -1
2.-3. Signý Arnórsdóttir, GK 147 högg (71-76) +3
2.-3. Valdís Þóra Jónsdóttir, GL 147 högg (73-74) +3
4. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK 148 högg (76-72) +4
5.-6. Berglind Björnsdóttir, GR 149 högg (76-73) +5
5.-6. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR 149 högg (74-75) +5
7. Ragnhildur Sigurðardóttir, GR 152 högg (76-76) +8