Ólafía Þórunn afhentur sigurbikarinn. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 31. 2014 | 12:00

Eimskipsmótaröðin 2014 (5): Viðtal við Íslandsmeistara kvenna í höggleik 2014 —– Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, úr Golfklúbbi Reykjavíkur er Íslandsmeistari kvenna í höggleik 2014. Þetta er í 2. skiptið sem Ólafía verður Íslandsmeistari í höggleik, en hún varð fyrst Íslandsmeistari í höggleik 2011.  Ólafía Þórunn útskrifaðist frá Wake Forest háskólanum í Norður-Karólínu í hagfræði nú í vor og er nú við golfæfingar í Þýskalandi.  Hún gaf sér tíma til að svara nokkrum spurningum Golf 1:

Ólafía Þórunn og Birgir Leifur, Íslandsmeistarar í höggleik 2014. Mynd: Golf 1

Ólafía Þórunn og Birgir Leifur, Íslandsmeistarar í höggleik 2014. Mynd: Golf 1

1.  Hvenær vissirðu að Íslandsmeistaratitillinn var höfn? …. og Hvernig tilfinning var það að verða Íslandsmeistari í höggleik aftur? 

Ólafía Þórunn: Þegar lokachippið var komið innan við meterinn. Tilfinningin er mjög góð, gaman að vinna aftur.

2.  Af Íslandsmeistaratitlunum 2 sem þú hefir unnið í höggleik, hvor sigurinn er eftirminnilegri og af hverju? 

Ólafía Þórunn: Fyrsti sigurinn var sætur. Það var líka fyrsti sigurinn minn á mótaröðinni, ég var búin að vera í öðru sæti allt of oft þetta sumar og svo loksins kom það, braut ísinn með stæl. Svo þurfti ég líka að halda ræðu í fyrsta skipti og fyrir framan alla í Bláa Lóns veislusalnum. Svo var skrítið að fá svona mikla athygli eftir mótið.

Íslandsmeistari kvenna í höggleik 2014 - Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR. Mynd: Golf 1

Íslandsmeistari kvenna í höggleik 2014 – Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR á 1. teig lokahringinn 28. júlí 2014 á Íslandsmótinu í golfi. Mynd: Golf 1

3.  Af hverju ertu stoltust í nýliðnu Íslandsmóti (fyrir utan það að verða Íslandsmeistari – þ.e. spurt um afrek úti á velli. Var það t.d. 3 fuglar í röð á 13.-15. braut á 2. hring eða e-hv annað og þá hvað?) 

Ólafía Þórunn: Ég er stoltust af því hvernig ég höndlaði lokaholuna. Ég átti tvö erfið högg í röð, bæði innáhöggið með trén í línunni og svo chippið að holunni var niðurímóti lega og flötin lá niðurímóti líka.

4.  Hvað finnst þér um aukna þátttöku kvenkylfinga í Íslandsmótinu í höggleik? (33 þátttakendur er met!) – Finnst þér samkeppnin vera að aukast? 

Ólafía Þórunn: Bara glæsilegt! Já, það eru mun fleiri sem geta leikið frábært golf og þar af leiðandi eiga möguleika á sigri.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR. Mynd: Golf 1

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR. Mynd: Golf 1

5.  Af hverju ertu stoltust af því sem liðið er af golfsumrinu? 

Ólafía Þórunn: Á góðri íslensku: Ég er stoltust af „comebackinu“ mínu. Ég var ekki alveg nógu sátt við þjálfarann minn lokaárið, og ákvarðanirnar sem hún tók. Svo þegar mér leið svona illa í kringum hana og var svo reið útí hana, var ég ekki að spila nógu vel. Ég kom henni ekki útúr kollinum á mér. En svo ákvað ég að taka bara alveg frí frá golfi og vonaði að það myndi hjálpa, sem það sannalega gerði! Mér gekk frábærlega á EM og svo núna í Íslandsmótinu.

6 Trufla áhorfendur, ljósmyndarar, sjálfboðaliðar o.s.frv. þig í stórmóti sem Íslandsmótinu í höggleik?

Ólafía Þórunn: Oftast ekki. Bara þegar þeir eru að hreyfa sig beint í línu hjá manni eða taka myndir í miðri sveiflu, og „click“ hljóðið heyrist. Svo ef að fjöldi fólks er komið saman eins og á 18. holu, þá kitlar það aðeins meira taugarnar.

Þórður Rafn Gissurarson, Axel Bóasson, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Birgir Leifur Hafþórsson, og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir sátu fyrir svörum á spjallfundi í dag, 26. júlí 2014. Mynd: Golf 1

Þórður Rafn Gissurarson, Axel Bóasson, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Birgir Leifur Hafþórsson, og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir sátu fyrir svörum á spjallfundi í dag, 26. júlí 2014. Mynd: Golf 1

7.  Hvað finnst þér um nýjung GSÍ að vera með spjallfundi við ykkur kylfinganna strax eftir spilaða hringi ykkar – Situr ekki að ykkur, ef þið komist ekki í sturtu eftir hring? (Mér fannst ykkur vera hrollkalt og sárvorkenndi ykkur að sitja fyrir svörum)

Ólafía Þórunn: Það var stemning að hafa svona spjall, ég held líka að áhorfendur hafi skemmt sér. Einn daginn fór ég heim í sturtu áður en þetta byrjaði og hafði góðan tíma fyrir. En svo annan daginn var spjallið klukkutíma eftir að ég kláraði að spila. Það var eiginlega betra að fara ekki heim í millitíðinni, vinda sér bara beint í þetta, þá gat maður haldið rútínunni sinni um kvöldið, slakað á og reynt að hugsa ekki um golf of mikið.

 8. Hver er uppáhaldsgolfholan þín á Leirdalsvelli og …Hver er uppáhaldsgolfholan þín á Íslandi? 

Ólafía Þórunn: Uppáhalds holan mín á Leirdalsvelli er örugglega 13. hola, par 3. Ég fékk tvo fugla þar, næstum þrjá. Svo er 13 líka góð tala. Uppáhalds holan mín á Íslandi er örugglega 15. Hola í Grafarholti. Hún er krefjandi en bíður líka uppá gott skor ef vel spiluð.

9.  Hvað tekur við það sem eftir er árs hjá þér?

Ólafía Þórunn: Ég fer til Japan á heimsmeistaramótið með landsliðinu. Svo eftir það er ég ekki alveg viss hvað ég geri, fyrir utan að fara í úrtökumót fyrir Evróputúrinn. Ég verð allavega í Þýskalandi að æfa þangað til.