Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 30. 2014 | 21:45

Eimskipsmótaröðin 2014 (5): Að afloknu Íslandmótinu í golfi – Var formaðurinn ánægður með hvernig til tókst?

Guðmundur Oddson, hefir verið formaður Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar (GKG) í 9 ár, en klúbburinn er 20 ára á þessu ári og nýlokið er glæsilegu Íslandsmóti í golfi á aðalvelli klúbbsins, Leirdalsvelli. Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar átti veg og vanda að Íslandsmótinu og óhætt að segja að öll umgjörð og skipulagning hafi verið framúrskarandi og klúbbnum til mikillar prýði á afmælisárinu.

Í fyrra (2013) voru félagsmenn í GKG 1913 en voru aðeins 250 þegar klúbburinn var stofnaður. En það er ekki aðeins að meðlimafjöldinn hafi aukist næstum áttfalt, mikil uppbygging hefir átt sér stað, sérstaklega í barna- og unglingastarfi og Íslandsmeistarinn sjálfur, Birgir Leifur Hafþórsson er úr GKG.

En … það er ekki síst formanninum, Guðmundi Oddssyni,  að þakka að klúbburinn fékk yfirleitt að halda Íslandsmótið.

Í löngu viðtali við Golf 1 (seinni hlutinn birtist á morgun 31. júlí 2014) var formaðurinn m.a.  inntur eftir hvernig það hafi borið að, að GKG hafi fengið að halda þennan mesta viðburð í íslensku golfi á afmælisárinu.

„Það var á formannsfundi í Vestamannaeyjum þegar klúbburinn (GKG) var 12 ára að ég fór í pontu – en eins og oft er á þessum fundum fá menn málið eftir fundarhöldin sjálf og við fórum í pontu einn af öðrum og vildum fá að halda mótið..  Ég sagði að árið 2014 yrði GKG 20 ára og þá tilefni til að halda Íslandsmótið hjá okkur.  Ég hugsa að þetta hafi verið í svo langri framttíð þá (þ.e. 2006) að það var ekkert vandamál að fá þetta samþykkt að við fengjum mótið 2014 – það var engin trú á að þetta væri raunveruleiki, því völlurinn okkar var í raun ekki tilbúinn þá til að halda svona mót.“

En síðan þá hefir mikil uppbygging átt sér stað hjá GKG? „Já við höfum m.a. gróðursett mörg þúsund trjáplantna og völlurinn er allur  orðinn hlýlegri nú en hann var fyrir 8 árum.   Nú rétt fyrir mótið átti sér stað ótrúlega mikil vinna. Vallarstjórinn okkar er hreinasti kraftaverkamaður – Hann náði að gera við völlinn,  þrátt fyrir vætutíð og koma honum í keppnishæft stand Þetta var. mikil vinna menn byrjuðu kl. 4 á morgnanna. Það þurfti að koma skjá sem er margra tonna þungur fyrir , áhorfendapöllum og leggja kapla út um allt. Það var valinn maður í hverju rúmi – ræsarnir okkar t.a.m. eru hreinustu afburðamenn. Það er heljarins mikið fyrirtæki að halda svona mót.  En ég tek undir með forystu GSÍ  að leggja eigi mikinn metnað í Íslandsmótið í golfi.“

Hvað voru margir sjálfboðaliðar í mótinu?  „Við lögðum upp með að þeir þyrftu að vera um 100 og ég held að þeir hafi verið eitthvað hátt í 100.“

Nú var m.a. glæsilegt við mótið hversu marga sérmerkta golfbíla þið voruð með til ráðstöfunar t.a.m. fyrir okkur fjölmiðlamenn, en einnig mótsstjórn, dómara, tímaverði  og sjálfboðaliða – hvernig fóruð þið að þessu?  „Klúbburinn á 8 bíla.    Við fengum fyrirtækið MHG til að lána okkur 10 bíla og eins fengum við lánaða bíla hjá Keili og GR. GKG horfir í það að það þurfi að eiga bíla og eins eru tillögur á borðinu um að menn fari í framtíðinni  ekki á sínum bílum um völlinn heldur fái þá hjá klúbbnum.  Sem stendur höfum við ekki geymslu fyrir marga golfbíla,  en það breytist þegar við fáum nýju bygginguna.“

Nú er frítt inn á Íslandsmótið og þið með áhorfendapalla, risaskjá launaða vallarstarfmenn o.fl. o.fl. Er ekki mikill kostnaður sem fellur á klúbbinn við að standa svona vel að Íslandsmótinu – hvernig farið þið að því að fjármagna það?   Við fengum u.þ.b. 1.8 milljón hjá GSÍ, sem er svona 10-15% af þeim kostnaði sem stafar af því að halda svona mót.  Síðan létu sveitarfélögin Garðabær og Kópavogur okkur í té 4 milljónir hvort og síðan reynum við að fá styrktaraðilana til þess að styrkja mótið.

Er eitthvað sem þú ert ósáttur við varðandi mótið?  „Já, ég var ekki sáttur við innbyrðis stríð fjölmiðlana – það var engin frétt um Íslandmótið á Stöð 2; daginn sem það hófst var aðeins einhver frétt á Stöð 2 um varalið Liverpool sem var á ferð um Bandaríkin – ekkert minnst á Íslandsmótið í golfi!  (Það skal tekið fram að Guðmundur er mikill stuðningsmaður Chelsea).  Það var ekki fyrr en seint og síðar meir sem einn félagsmanna okkar hér Valtýr Björn hjá Stöð 2 mætti á staðinn.  Eitthvað ósætti milli GSÍ og Stöðvar 2 má ekki bitna á GKG – GKG hefir ekkert gert þeim.  Svona hlutir eru ekki góðir.  Hvernig sem samningar GSÍ við RÚV og 365 eru, má það ekki gerast þegar svona viðamikið mót er haldið að engin umfjöllun sé um það hjá stórum miðli.   Félagsmenn í golfklúbbum eru nú yfir  17.000 og annar eins fjöldi sem spila golf.  Þetta má bara ekki gerast í svona litlu þjóðfélagi.

Fékkstu veðrið og áhorfendafjöldann sem þú vildir – varstu í heildina tekið ánægður með hvernig til tókst?  „Já, ég held það væri vanþakklæti að svara því ekki játandi, en hvað veðrið snerti þá leit það á stundum  ekki vel út. Ég sagði við tvo presta á mótinu Örn Bárð og Pálma Matthíasson að hvað veðrið snerti hefði mér ekki reynst vel að tala við þá, en ég hefði litið hærra og Guðirnir hefðu verið með okkur.  Það er best að leita beint til Himnaguðsins.“