Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 23. 2014 | 17:30

Eimskipsmótaröðin 2014 (5): Íslandsmótið í höggleik hefst á morgun!

Íslandsmótið í höggleik 2014 fer fram dagana 24.-27. júlí og er þetta í 72. skiptið sem keppt  er um Íslandsmeistaratitla í golfi.   Líkt og áður er mótið hápunktur golfsumarsins og Eimskipsmótaraðarinnar og ber auk þess heitið Eimskipsmótið.

Í ár fer Íslandsmótið fer fram á Leirdalsvelli og sér Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar um framkvæmd mótsins. Á þessu ári fagnar Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar tuttugu  ára afmæli sínu en klúbburinn var stofnaður 24. mars 1994. Í upphafi hafði klúbburinn níu  holur til afnota, en árið 1996 voru teknar í notkun níu holur til viðbótar og árið 2007 voru teknar í notkun níu holur í landi Kópavogs og var völlurinn þá kominn í þá stærð sem hann er nú.

Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar hefur á þessum 20 árum stækkað frá því að vera  einn af minnstu klúbbum landsins í það að vera annar stærsti klúbbur landsins með tæplega 2000 félagsmenn.

Leirdalsvöllur liggur frá Vetrarmýrinni í Garðabæ og upp í Leirdal í landi  Kópavogs og aftur til baka. Byggir því Leirdalsvöllur að helmingi á gamla Vífilstaðavellinum, sem byggður var á árunum 1994-1996 og síðan nýjum holum í Leirdal sem teknar voru í notkun 2007, eins og áður segir.

Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar hefur lagt mikinn metnað í framkvæmd mótsins og hefur undirbúningur staðið yfir undanfarin ár. Framkvæmdum við völlinn var lokið á síðasta ári og því var ætlunin að í sumar yrði einungis unnið við lokafrágang og snyrtingu svæðisins.

Erfiðar aðstæður í vetur, mikil klakamyndun á flötum og brautum, hafa þó gert vallarstarfsmönnum erfitt fyrir þar sem klakinn skildi eftir nokkuð mikil sár á vellinum.

Með mikilli vinnu í vetur við að brjóta klaka og hreinsa tókst þó að bjarga flötum og teigum frá skemmdum en nokkur sár eru enn á brautum.

Mikil rigningartíð undanfarnar vikur hefur ekki auðveldað vallarstarfsmönnum undirbúninginn, en völlurinn er þó eins og best verður á kosið miðað við fyrrgreindar aðstæður.

 Íslandsmótið í höggleik hefur á undanförnum árum skapað sér sérstakan sess meðal kylfinga  þar sem lögð er áhersla á að búa til sem glæsilegasta umgjörð sem hefur hvatt kylfinga til þátttöku.

Í ár taka allir sterkustu kylfingar landsins þátt í mótinu og efnilegir kylfingar úr unglingaflokkunum eru jafnframt meðal keppenda.

Íslandsmeistari karla frá 2013, Birgir Leifur Hafþórsson GKG, er meðal keppenda á sínum heimavelli, Haraldur Franklín Magnús GR, Íslandsmeistari 2012, Sunna Víðisdóttir GR, Íslandsmeistari kvenna 2013, og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR, Íslandsmeistari kvenna 2012, eru öll meðal keppenda sem og atvinnumennirnir okkar sem hafa verið að reyna fyrir sér á erlendum mótaröðum á árinu, þeir Ólafur Björn Loftsson NK, Þórður Rafn Gissurarson GR og Valdís Þóra Jónsdóttir GL.

Þá eru margfaldir Íslandsmeistarar frá fyrri tíð einnig með í mótinu eins og Björgvin Þorsteinsson GA og Ragnhildur Sigurðardóttir GR.