Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 16. 2012 | 15:00

Eftirminnileg US Open augnablik nr. 7

Nú verður fram haldið að draga upp mynd af eftirminnilegum augnablikum liðinna US Open móta:

13. US Open 1992

Tom Kite sigraði loks á US Open, 42 ára.  Hann hafði þegar að baki 16 sigra á PGA Tour, og var leiðandi á peningalistanum oftar en einu sinni.  Hins vegar var hann búinn að fá meira en nóg af þvi að heyra að hann væri besti kylfingur sem aldrei hefði sigrað á risamóti (líkt og Lee Westwood í dag).  Það breyttist allt saman á Pebble Beach, þrátt fyrir að mest allt mótið hafi annar risamótasigurlaus fjörutíuogeitthvað ára Bandaríkjamaður Gil Morgan verið líklegri til að sigra.  Hann leiddi eftir 3 hringi. En lokadagurinn var hvass og Morgan því miður á skori upp á 81 högg. Kite setti niður chip með fleygjárni á 7. holu fyrir fugli – „besta högg ferilsins“ eins og hann sagði síðar og var á sigurskori upp á 72 högg!!!

14. US Open 1966

Þetta er eflaust eitt frægasta US Open mót allra tíma og verður lengi í minnum haft þó 46 ár séu liðin frá því það fór fram. Billy Casper sigraði sjálfan Arnold Palmer, eftir mörg mistök þess síðarnefnda sem ekki hvað síst skrifuðust á andlega spilaform Palmer.  Þegar aðeins voru eftir seinni 9 á sunnudeginum virtist sem Arnold Palmer hefðis sigurinn í hendi sér; hann leiddi með 7 höggum. En Arnie sem spilaði fyrri 9 á 32 höggum hrundi og lauk leik á 71 höggi. Casper tryggði sér umspil, sem hann sigraði síðan með 4 höggum, en leikur Casper var m.a. einstæður fyrir þær sakir að hann þrípúttaði ekki í neinum af 5 hringjum sínum (í þá daga var umspil 18 holu spil þ.e. 5. hringurinn).