Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 27. 2013 | 12:00

Donald Trump hyggur á lögsókn

DONALD Trump ætlar nú að láta kné fylgja kviði í hótunum sínum um að lögsækja skoska ríkið, en stjórn landsins samþykkti byggingu vindorkuvers undan ströndum Aberdeen, þar sem  Trump International Golf Links at Balmedie Dunes er staðsettur.

Trump hefir þegar stöðvað allar frekari framkvæmdir á staðnum en hann hafði m.a. áætlað að byggja 950 sumarbústaði og 500 hús og verja til þess 750 milljónum punda.

Þess í stað rís nú 11 túrbínu vindorkuver (European Offshore Wind Deployment Center (EOWDC) fyrir 230 milljónir punda, undan ströndum Aberdeen, þar sem golfstaður Trump er. Þar eiga að  fara fram rannsóknir, en vindverinu er einnig ætlað að framleiða orku fyrir 49.000 heimili, næstum helming allra heimila Aberdeen.

Trump á hinn bóginn segir vindverið skemma útsýnið frá golfstað sínum. „Þetta var hrein og klár pólítísk ákvörðun. Þráhyggja forsætisráðherrans Alex Salmond á innantómri vindtækni mun eyðileggja mikilfengleik og fegurð Skotlands. Líka mun ferðamannaiðnaðurinn, stærsti iðnaðaauður Skotlands leggjast í rúst.“