Dustin Johnson (DJ)
Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 18. 2017 | 10:00

DJ snýr aftur í keppnisgolfið

Nr. 1 á heimslistanum Dustin Johnson (DJ) segist ekki vera alveg orðinn 100% góður af meiðslum sínum en hann sé „að slá boltann betur“ en hann gerði áður en hann slasaðist daginn fyrir Masters risamótið.

Ég var að slá boltann betur í dag en þegar ég meiddist, þannig að það var gaman,“ sagði DJ í viðtali við Jordan Schultz, blaðamann Huffington Post.

Johnson meiddist í baki og á vinstri olnboga þegar hann datt niður stiga á leiguhýsi sínu í Augusta, daginn áður en Masters hófst.

Röntgenmynd sýndi djúpt mar á mjóbaki DJ.

Mér líður mun betur í bakinu. Það er líklega 85-90% gróið,“ sagði DJ við Schultz.

Hinn 32 ára DJ staðfesti að næsta mót, sem hann myndi taka þátt í á PGA Tour væri Wells Fargo Championship sem hefst 4.maí nk.