Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 2. 2013 | 06:00

DJ leiðir enn fyrir lokahring HSBC

Bandaríski kylfingurinn Dustin Johnson (DJ) leiðir enn fyrir lokahring HSBC heimsmótsins, sem hófst s.l. fimmtudag á Sheshan golfvellinum í Shanghaí, Kína.

Hann er samtals búinn að leika á 18 undir pari, 198 höggum (69 63 66).

Aðrir kylfingar eru að saxa á forystu DJ en hann hafði 5 högga forystu eftir 2. dag mótsins; nú er sú forysta hans aðeins 3 högg.

Það er Ian Poulter sem er að geysast upp skortöfluna, er nú einn í 2. sæti eftir frábæran 3. hring upp á 9 undir pari, 63 högg, þar sem hann fékk örn, 8 fugla og 1 skolla.  Samtals er Poulter búinn að leika á 15 undir pari, 201 höggi (71 67 63).

Þótt undarlegt sé var Poulter ekki á besta skorinu á 3. hring – Það var þýski kylfingurinn Martin Kaymer sem lék á 10 undir pari, 62 höggum og setti nýtt vallarmet!!!  Hringurinn góði kom Kaymer þó aðeins upp í 7. sæti, en hann var áður búinn að eiga „slaka“ 1. og 2. hringi upp á 70 og 74.  Sjöunda sætinu deilir Kaymer síðan með þeim Bubba Watson og Boo Weekley en þeir hafa allir leikið á samtals 10 undir pari, 206 höggum, hver.

Í 3. sæti sem stendur er Graeme McDowell á samtals 14 undir pari, 202 höggum (69 69 64) en hann átti líka góðan 3. hring, sem þó fellur í skuggann á hinum tveimur þ.e. upp á 64 högg sem fleytti honum upp í 3. sætið.

Rory deilir 4. sætinu ásamt kanadíska kylfingnum Graeme DeLaet og Justin Rose, en allir hafa þeir leikið á samtals 12 undir pari, 204 höggum, hver.

Til þess að sjá stöðuna eftir 3. dag HSBC heimsmótsins SMELLIÐ HÉR: