Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 16. 2012 | 09:00

Daníel Popovic sigraði á Australian PGA Championship

Það var ástralski kylfingurinn Daníel Popoivc sem sigraði á Australian PGA Championship og er þetta fyrsti sigur hans á ástralska PGA.

Popovic vann með 4 högga mun á þá sem næstir komu, landa sína Anthony Brown og Rod Pampling.  Samtals lék Popovic á  16 undir pari, 272 höggum (64 70 69 69).

Þeir Anthony Brown og Rod Pampling voru á samtals 12 undir pari, 276 höggum hvor; Brown (73 68 64 71) og Pampling (71 67 69 69)..

Fjórða sætinu deildu þeir Geoff Ogilvy og Brad Kennedy á 11 undir pari og í 6. sæti voru Green-arnir áströlsku; Nathan og Richard á samtals 10 undir pari.

Níu kylfingar deildu síðan með sér 8. sætinu þ.á.m. maðurinn sem orðaður hefir verið við Ryder Cup fyrirliðastöðuna fyrir Evrópu 2014, sigurvegari Opna breska 2011, Darren Clarke en allir í 8. sæti voru á samtals 9 undir pari, 279 höggum; Darren Clarke (70 69 72 68).

Gamla brýnið Peter Senior, 53 ára, lauk keppni í 27. sæti á samtals 5 undir pari, en þar gerði útslagið afar slakur lokahringur upp á 77 högg.  Fyrir mótið átti hann möguleika á því að vinna bæði mótin Australian Open og Australian PGA Championship í annað skipti; en hann var búinn að sigra glæsilega á Australian Open fyrr í mánuðnum.

En aftur að sigurvegara mótsins:

Það er ekki svo langt síðan að Popovic var að búa til pizzur hjá Pompeo’s í Doncaster East í Melbourne, Ástralíu.

„Ég hef búið til pizzur í 5 ár og ég vann sem umferðarlögga í nokkra mánuði til þess að ná saman peningunum til þess að komast á Q-school Evrópumótaraðarinnar 2010,“ sagði Popovic m.a. eftir frábæran 1 hring sinn, sem eiginlega færði honum sigurinn þegar litið er tilbaka.

Mamma Popovic, Mila grét eftir að sonur hennar náði að spila á 64 á fyrsta hrignum og hún var of taugaóstyrk til þess að horfa á framhaldið í sjónvarpinu. Pabbi Popovic, Radi, var á spítala til þess að láta draga sér blóð til krabbameinsrannsókna og missti líka af 1. hring sonarins. Hann er svo flughræddur að hann getur ekki horft á son sinn spila á Coolum golfvellinum, þar sem mótið fer fram.  Faðir Popovic er langveikur og koma peningar sonarins, sem hann færi fyrir sigurinn sér einkar vel fyrir fjölskylduna.

Ástralskir fjölmiðlar hafa gert sér mat úr pizzastarfi Popovic m.a. var fyrirsögn ástralska blaðsins Herald Sun: „Pizza man Daniel Popovic dreams of big dough at Australian PGA“ (sem útleggst eitthvað á þessa leið á okkar ylhýra: Pizzamaðurinn Daníel Popovic dreymir um stóra deigið (þ.e. mikla peninga) á ástralska PGA).

 

Til þess að sjá úrslitin á Australian PGA Championship SMELLIÐ HÉR: