Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 24. 2020 | 03:00

Cowen með kóróna

Hinn goðsagnakenndi sveifluþjálfari Pete Cowen hefir verið að kljást við kórónavírusinn, eftir að hafa verið á Players meistaramótinu nýlega, sem var aflýst.

Hann upplýsti að hann hafi verið veikur af kóróna, allt eftir heimkomuna af Sawgrass.

Cowen, sem fæddur er í janúar 1951 og verður því 70 ára á næsta ári sagði að heilbrigðisstarfsmenn á mótinu hefðu staðfest að hann væri með öll einkenni kórónavírusins.

Þú vilt ekki fá þetta,“ sagði Cowen m.a. í viðtali við „The Telegraph“. „Mér líður hryllilega og myndi ekki óska neinum að fá þetta, sama hversu ungir og í góðri þjálfun þeir eru.“

Hann veiktist eftir að hafa unnið með kylfingum á borð við Brooks Koepka, Gary Woodland og Henrik Stenson.

Eftir nokkra daga í sóttkví ákvað ég að hringja í sjúkrabíl, en heilbrigðisstarfsfólkið þar sagði að öll einkenni mín pössuðu við kóróna – lágt hlutfall súrefnis í blóði, viðvarandi þurr hósti, hár hiti og ör hjartsláttur,“ sagði Cowen.

Það (heilbrigðisstarfsfólkið) var frábært, en það sagði að þeim væri ekki leyft að testa mig, nema ég legðist inn á sjúkrahús og síðan tæki starfsfólkið þar ákvörðun hvað gert yrði. Ég var mjög undrandi, svo vægt sé til orða tekið og finnst þetta enn skrítið, í hreinskilni sagt, en vegna skorts á sjúkrarúmum og vegna þess að ég er í góðu ásigkomulagi, ákvað ég að vera heima.“

Ég vil ekki hræða neinn,“ sagði Cowen, „það getur verið að ég hafi verið sérlega viðkvæmur, en ég veit hreinlega ekki hvernig nokkur maður með undirliggjandi sjúkdóm á að ráða við þetta. Ég hvet alla til þess að fara nákvæmlega eftir því sem yfirvöld eru að segja. Ég hef sagt leikmönnunum mínum það sama.

Cowen hefir átt glæstan feril og stjörnur undir handleiðslu hans hafa samtals hlotið 8 risatitla og hann fullkomnaði „þjálfara grand slam-ið“ þegar Koepka sigraði á PGA Championship.

Cowen hefir m.a. starfað með Lee Westwood, Sergio Garcia, Graeme McDowell og Tommy Fleetwood.

Cowen býst ekki við að snúa til starfa, þ.á.m. á æfingasvæðið a.m.k. í næstu framtíð.

Ég sé ekki fyrir mér að (PGA) Túrinn haldi áfram á næstu mánuðum. En eftir að hafa fengið viku „frí“ og eftir að hafa meðtekið allt, þá veit ég að atvinnumennirnir munu fara að æfa og fullvissa sig um að allt hjá þeim verði í fínu lagi.“

Í næstu viku, er ég viss um að þeir senda mér nokkuð af myndskeiðum af sér, sem þeir biðja mig um að skoða. Vonandi verð ég nógu hress í það þá.“

Í aðalmyndaglugga: Pete Cowen (t.v.) og Brooks Koepka (nr. 1 á heimslistanum t.h.).