Christina Kim
Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 28. 2011 | 09:45

Christina Kim spilar á Ladies Dubai Masters

Christina Kim er nýjasta (golf)stjarnan sem hefir staðfest að hún muni spila á Omega Dubai Ladies Masters, en verndari mótsins er hennar konunglega hátign prinsessan Haya bint Al Hussein, eiginkona hans hátign Sheikh Mohammed bin Rashid Al Maktoum, varaforseta og forsætisráðherra Sameinuðu Furstadæmanna og stjórnanda Dubai. Mótið fer fram í Emirates Golf Club, 14.-17. desember n.k.

Þessi vinsæli bandaríski kylfingur (Kim) er hluti mikils stjörnliðs kvenkylfinga þar sem m.a. gefur að finna vinkonu hennar Michelle Wie, sendiherra „Golf in Dubai“ Lauru Davies, Melissu Reid frá Englandi, Sophie Gustafson frá Svíþjóð og Gwladys Nocera, frá Frakklandi m.a. stjarna.

Kim, sem er handhafi tveggja sigurtitla á LPGA og 1 á LET, sagðist vera yfir sig ánægð að spila í Dubai 3. sinnið í röð. „Ég elska að vera í Dubai. Ég gæti hugsað mér að búa þar,“ sagði hún fyrir € 500.000,- mótið, sem er kynnt og skipulagt af Golf in Dubai.

„Ég vil heimsækja Dubai á hverju ári,“ sagði Kim, sem lauk keppni T-4, samtals -6 undir pari á samtals 284 höggum á síðasta ári, aðeins 5 höggum á eftir sigurvegaranum Iben Tinning frá Danmörku.

Af 8 mótum sem Christina Kim hefir tekið þátt í á LET á þessu keppnistímabili, er aðeins 1 mót sem hún komst ekki í gegnum niðurskurð á (Women´s British Open). Besti árangur hennar í ár er sigur hennar á Opna sikileyska og síðan er líka eftirminnilegur T-2 árangur hennar á Jamie Farr Owens Corning Classic. Christina hefir þrisvar sinnum verið í Solheim Cup liði Bandaríkjanna. Besti árangur hennar í þeim 20 mótum sem hún hefir spilað í á LPGA á árinu er T-13 árangur hennar á Avnet LPGA Classic.

Christina Kim er þekkt fyrir áhuga sinn á tísku og þessi 27 ára sprengikraftsmaskína trúir á að spila agressívt á golfvellinum. „Taka áhættu eða fara heim“ (ens.: Go big or go home“) er heimspeki hennar og það virðist henta þessari hreinskilnu stúlku frá San Jose, Kaliforníu.

Sem félagi bæði á LPGA og LET þá hefir Kim reglulega komið til Evrópu. Um það hefir hún eftirfarandi að segja: „Jafnvel þó LPGA sé aðalmótaröðin mín, þá er þetta eins og annað heimili mitt og samkeppnin hér er ótrúleg í hverri viku,“ sagði hún eftir sigur á Opna sikileyska s.l. október (ens.the Sicilian Ladies Italian Open).

„Á báðum mótaröðum er ég a.m.k. með 1 sigur undir beltinu og ég get ekki beðið að sjá hversu marga mér mun takast að ná á ferli mínum,“ sagði þessi þrefaldi þátttakandi í Solheim Cup.

Mohamed Juma Buamaim, varastjórnarformaður og framkvæmdastjóri Golf in Dubai, sagði um þátttöku CK: “Christina hefir hrífandi karakter sem ljær vellinum sérstaka orku. Allir elska að fylgjast með henni spila golf – og hún er frábær kylfingur.“

„Þátttaka hennar er mikill fengur fyrir mótið og líka fyrir kvennagolf í þessum hluta heimsins. Ég óska henni alls hins besta.“

Heimild: emirates24/7.com