Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 31. 2012 | 06:45

Cheyenne Woods vann sinn fyrsta titil sem atvinnumaður

Cheyenne Woods krækti sér í fyrsta sigur sinn síðdegis fimmtudaginn 30. ágúst, í gærkvöldi að íslenskum tíma, þegar hún lauk leik á móti á Suncoast Ladies series á 1 undir pari 69 höggum og átti 4 högg á þá sem næst kom, Taylor Karle.

Leikið var á LPGA International golfvellinum á Daytona Beach, í Flórída.

Cheyenne var í 5 högga forystu fyrir lokahring þessa 54 holu móts og var á heildarskori  upp á 204 högg (67 68 69).

Cheyenne Woods varð T-50 á Evian Masters fyrr í sumar en komst ekki í gegnum niðurskurð á US Women´s Open.

Cheyenne er fyrrum skólafélagi Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur, GR og Wake Forest og spiluðu þær saman í háskólaliði Wake Forest, en Cheyenne útskrifaðist nú í vor.

Frændinn frægi, Tiger Woods var fljótur að óska frænku sinni til hamingju með sigurinn:

„Congrats to my niece Cheyenne on winning her first professional event on SunCoast Ladies Series Tour! Won by 4, very proud.“

(Lausleg þýðing: Hamingjuóskir til frænku minnar, Cheyenne, fyrir að sigra á fyrsta atvinnumóti sínu á SunCoast Ladies Series Tour! Vann með 4, mjög stoltur.“)