Cheyenne Woods og kengúra í Ástralíu
Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 3. 2013 | 07:15

Cheyenne Woods nýtur Ástralíu

Meðal keppenda á Volvik RACV Ladies Masters var Cheyenne Woods, frænka Tiger og fyrrum liðs-og skólafélagi Ólafíu „okkar“ Þórunnar í Wake Forest.

Cheyenne stóð sig ágætlega komst í gegnum niðurskurð og varð í 33. sæti af 60 sem spiluðu lokahringinn. Skor Cheyenne var upp á samtals 2 yfir pari, 218 högg (74 72 72).

Cheyenne safnar þannig leikreynslu en hún er að hefja 1. keppnistímabil sitt á Evrópumótaröð kvenna.

Cheyenne notaði tækifærið og kynnti sér náttúru Ástralíu; heimsótti m.a. Currumbin Sanctuary sem er aðeins suður af Surfers Paradise á Gullströndinni.

Um veru sína í Currumbin þjóðgarðinum sagði Cheyenne m.a.: „ Currumbin var frábær upplifun. Þetta er svo sannarlega aðeins einu sinni á ævinni sem maður upplifir eitthvað svona. Ég hefði aldrei ímyndað mér að ég fengi að halda á koala björnum og gefa kengúrunum.“

„Kengúrurnar voru í uppáhaldi!“  Og svo virðist af myndinni að dæma að kengúrunum hafi líkað heimsókn Cheyenne!