Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 4. 2015 | 15:00

Charlie Sifford látinn 92 ára

Charlie Sifford, sem var fyrsti þeldökki kylfingurinn til þess að spila á PGA Tour lést í gær, 3. febrúar 2015, 92 ára að aldri.

Charles Sifford var fæddur í Charlotte, Norður-Karólínu, 2. júní 1922. Banamein hans var hjartaáfall.

Forseti PGA of America, Derek Sprague kallaði Sifford „óhefðbundinn og tryggan þjón (golfíþróttarinnar).“

Ekki hefir verið gefið upp hvenær Sifford verður jarðsettur.

Charles Sifford fyrsti blökkumaðurinn til að sigra golfmót á PGA – Hann varðaði veginn fyrir aðra sem fylgdu m.a. Tiger

Hann hóf feril sinn í golfi 13 ára þegar hann gegndi störfum kaddýs.  Í Bandaríkjunum á þeim dögum sem Sifford var að alast upp var þeldökkum bannað að spila á golfvöllum hvíta fólksins.

Seinna keppti hann á golfmótum svartra þar sem svörtum var ekki heimiluð þátttaka á PGA. Hann reyndi fyrst að komast á PGA 1952 á Phoenix Open og notaði boð þáverandi heimsmeistara í boxi Joe Louis, en varð m.a. fyrir líflátshótunum vegna litarháttar síns og mátti þola allskyns kynþáttatengd meiðyrði þegar hann keppti í mótum upp frá því. Sifford sigraði 1957 Long Beach Open, sem var óopinbert PGA mót en þá styrkt af sambandinu. Hann komst loks á PGA 1961 og vann tvö mót á mótaröðinni og síðan eitt á PGA Seniors Championship 1975.

Í ævisögu sinni „Just let me Play“ segir Sifford m.a. frá þeim kynþáttafordómum sem hann mátti þola, vegna þess eins að hann vildi spila og keppa í golfi.

Sifford verður ævinlega minnst fyrir að vera baráttumaður fyrir jafnrétti og bættum hag blökkumanna. Baráttan var erfið og í viðtali sem ég las við Sifford örlaði á því að hann væri bitur.  Hann hlaut þó ýmsar vegtyllur og var vel að þeim kominn, þ.á.m. inngöngu í frægðarhöll kylfinga 2004, fyrstur blökkumanna og heiðursdoktorsnafnbót frá St. Andrews, vöggu golfíþróttarinnar.

Það eru menn eins og Sifford sem eru ljósberar í svartnætti fordóma og  fáfræði, illsku og ómannúð manneskjunnar og gerir líf okkar allra betra.

Sifford var meira en framúrskarandi kylfingur – hann var sannkölluð hetja, goðsögn í lifanda lífi og nú að sjálfsögðu í dauðanum líka.

Golf 1 hefir áður fjallað um blökkumenn í golfi, þ.á.m. Sifford, í eldri grein sem sjá má með því að  SMELLA HÉR: 

Blessuð sé minning frábærs kylfings og baráttumanns Charles Sifford!