Ragnheiður Jónsdóttir | október. 16. 2012 | 18:30

Charl Schwartzel telur breytinga þörf á Forsetabikarnum

Charl Schwartzel er þeirrar skoðunar að gera þurfi breytingar á Forsetabikarnum til þess að gera keppnina meira spennandi.

„Það eru nokkrir hlutir sem þurfa að breytast til þess að Forsetabikarinn verði meira sérstakur,“ sagði Schwartzel í þessari viku. „Alþjóðaliðið þarf að byrja að ….. vinna aðeins fleiri leiki.“

Forsetabikarinn fer fram annað hvert ár, þ.e.a.s á árum sem Ryder bikar keppnin fer ekki fram. Þar keppir lið Bandaríkjamanna gegn Alþjóðaliðinu að undanskildu kylfingum frá Evrópu. Í þeim 9 keppnum, sem farið hafa fram frá upphafi, hefir Alþjóðaliðinu aðeins tekist að sigra 1 sinni og það hefir náð 1 jafntefli.

„Það er þörf breytinga á leikforminu, þannig að Alþjóðaliðið komi aðeins sterkar út,“ útskýrði sigurvegari the Masters 2011, Charl Schwartzel, sem lék í fyrsta sinn í Forsetabikarnum fyrir ári síðan í Royal Melbourne Golf Club, en þá tapaði Alþjóðaliðið enn einu sinni.

„Í hvert sinn sem Bandaríkjamenn keppa þá er enginn leikmanna þeirra undir 20. sætinu á heimslistanum en 12. leikmaður Alþjóðaliðsins er stundum nr. 60 á heimslistanum.“

Forsetabikarinn 2013 fer fram í Muirfield Village í Dublin, Ohio, Bandaríkjunum, með Fred Couples og Nick Price sem fyrirliða bandaríska og Alþjóðaliðsins. Schwartzel vonar að tekin verði skref fram á við í átt þannig að keppnin verði jafnari og meiri ástríða sé í keppninni á borð við þá sem sást í síðasta mánuði í Medinah.

„Á þessu stigi hafa Bandaríkjamenn unnið svo marga sigra að það er bara búist við að þeir sigri.“ „Það verður að finna leið til að jafna keppnina. Við verðum að fá þessháttar keppni þannig að hún verði spennandi.“

Heimild: Golf Channel