Ragnheiður Jónsdóttir | september. 3. 2016 | 02:00

Challenge Tour: Birgir Leifur fór gegnum niðurskurð á Cordon Golf Open!

Birgir Leifur Hafþórsson, sjöfaldur Íslandsmeistari úr GKG, lék á pari vallar á öðrum keppnisdeginum á Cordon Golf Open mótinu sem hófst í gær í Frakklandi.

Alls hefir Birgir Leifur leikið á sléttu pari, 140 höggum (70 70).

Mótið er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu (Challenge Tour), sem er næst sterkasta atvinnumótaröð í karlaflokki í Evrópu. Birgir bjargaði sér fyrir horn og komst í gegnum niðurskurðinn með tveimur fuglum í röð á lokaholunum. Hann lenti í ýmsum hrakningum á hringnum og lék m.a. par 4 braut á átta höggum. Birgir er í 48. sæti en þeir sem voru á +1 eða betra skori komust áfram. Alexander Knappe frá Þýskalandi er efstur á -11.

Sjá má stöðuna á Cordon Golf Open eftir 2. keppnisdag með því að SMELLA HÉR: 

Alls hefur Birgir leikið á sjö mótum á Áskorendamótaröðinni á þesu tímabili. Hann hefur náð ágætum árangri að undanförnu og besti árangur hans er sjötta sæti. Um síðustu helgi var hann í toppbaráttunni á móti sem fram fór á Englandi en hann endaði í 29. sæti á -9 samtals. Alls hefur Birgir unnið sér inn um 1.200 þúsund kr. á þeim þremur mótum sem hann hefur komist í gegnum niðurskurðinn.

Það er að miklu að keppa fyrir Birgi að laga stöðu sína á stigalistanum enn frekar fyrir keppnistörnina á Áskorendamótaröðinni í haust. Alls eru átta mót eftir en á lokaspretti keppnistímabilsins komast aðeins þeir allra stigahæstu inn á mótin. Birgir er í 108. sæti stigalistans á Áskorendamótaröðinni en hann hefur aldrei verið með lægra meðalskor á Áskorendamótaröðinni eða 70,67 högg.

Texti: GSÍ