Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 6. 2013 | 11:00

Caroline verður kaddý hjá Rory á par-3 holu mótinu á Masters

Við munum sjá Caroline Wozniacki í einum af þessum herfilega ólekkeru hvítu kaddýsamfestingum á Masters 2013, en hún hefir samþykkt að vera kylfuberi kæresta síns Rory McIlroy á par-3 holu mótinu, sem er undanfari aðalmótsins.

Það er ekki heillavænlegt fyrir Rory að reyna að heilla hana Caroline sína með sigri í par-3 mótinu, því það hefir aldrei gerst að sigurvegari þess móts hafi síðan unnið aðalmótið.

Caro og Rory

Caro og Rory

Þrátt fyrir slæmt gengi á undanförnum mánuðum er Rory bara hress.  Hann var á 67 höggum á Texas Valero Open í gær og skaust upp um 40 sæti á skortöflunni í 5. sætið.  Síðan sagði hann á blaðamannafundi í Texas um þátttöku sína í Masters sem framundan er: „Það er ágætt, já alveg ágætt að fara inn í fyrsta risamót ársins eftir að hafa sigrað síðasta risamót ársins, árinu á undan!“ Sjálfstraustið er hægt og bítandi að koma aftur.

Fáir eða nokkrir hafa verið teknir jafn rækilega undir smásjánna og Rory þegar hann brotnaði niður í Masters 2011. En hann svaraði með því að sigra á næsta risamóti Opna bandaríska á Congressional með 8 högga mun á næsta mann, Jason Day, sem er mesti munur í sögu mótsins, auk þess sem hann sló fjölda annarra meta.

Um það sagði Rory: „Með allri sanngirni þá er hægt að segja að þegar leikur minn hefir verið dreginn í efa hef ég svarað með sigri. Í 2 síðustu skiptin sem ég hef sigrað á risamótum hefir það verið þannig. Ég varð fyrir gangrýni og fólk dró í efa getu mína eftir hvað gerðist á Masters (en þá var Rory 21 árs) þannig að þegar ég hóf leik á Opna bandaríska var spurningin hvort ég hefði réttu innstillinguna eða andlegu hörkuna til þess að klára risamót. Jafnvel á síðasta ári var ég í svolítilli lægð áður en ég fór í PGA Championship, en það jafnaði sig fljótlega. Þetta er sama staðan og fyrir Masters í næstu viku. Kannski er þetta tákn um eitthvað gott en ég myndi ekki vilja fara inn í hvert risamót strögglandi, það væri ekki gott ,“sagði Rory brosandi!

Sigri Rory á Masters nú í ár verður hann yngsti sigurvegari mótsins frá því Tiger vann það 1997 og þá á hann bara eftir sigur í Opna breska til þess að fullkomna risamótsfernuna.