Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 2. 2018 | 06:00

Cameron Smith sigraði á Australian PGA

Það var Cameron Smith sem sigraði á Australian PGA Championship mótinu.

Smith stóðst áhlaup frá landa sínum Marc Leishman og náði að verja titil sinn á Australian PGA Championship mótinu.

Hinn 25 ára Smith hóf lokahring sinn á  RACV Royal Pines Resort með 3 högga forystu en eftir 9 holur var hann kominn 2 högg á eftir Leishman, sem átti frábærar fyrri-9 með skor upp á 32 þar.

Smith, hins vegar, sýndi stáltaugar, gaf í þegar á reyndi og spilaði seinni-9 á 33 – skrifaði undir kort upp á 70 högg og var því samtals á 16 undir pari, 272 höggum (70 65 67 70); 2 höggum á undan nr. 21 á heimslistanum, Marc Leishman sem varð að láta sér lynda 2. sætið með jafnt skor upp á 14 undir pari, 274 höggum (68 68 69 69).

Sigur Smith kom í aðeins 20. mótinu sem hann spilar í á Evróputúrnum og hann er sá fyrsti sem tekst að verja titil sinn á Australian PGA frá því Robert Allenby tókst það fyrir 17 árum, árið 2001.

Enski kylfingurinn Ross McGowan deildi 3. sætinu ásamt heimamanninum Matthew Millar en báðir voru á samtals 11 undir pari, hvor. McGowan setti auk þess nýtt vallarmet á Royal Pines, kom í hús á lokahringnum á glæsilegum 9 undir pari 63 höggum (skilaði skollalausu skorkorti með 9 fuglum og 9 pörum).

Ástralski kylfingurinn Jake McLeod spilaði lokahringinn á 74 höggum og varð T-19 á 3 undir pari, en sá árangur dugði honum til þess að tryggja sér efsta sætið á peningalista Ástralasíu mótaraðarinnar og þar með kortið sitt á Evróputúrnum á næsta ári!!!

Sjá má lokastöðuna á Australian PGA Championship með því að SMELLA HÉR: