Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 9. 2013 | 11:30

Bubba kaupir hús af Tiger í Isleworth

Bubba Watson hefir keypt gamla húsið hans Tiger í  Isleworth, en Bubba staðfesti að hann og eiginkona hans Angie myndu flytjast frá Scottsdale, Arizona, með ættleiddan son sinn Caleb til Flórída, líkt og margir PGA Tour leikmenn hafa verið að gera að undanförnu.

„Já, þetta er satt,“ sagði Bubba eftir að hafa verið með skor upp á 69 högg á 2. hring WGC-Cadillac Championship, sem kom honum í 5. sæti á samtals 9 undir pari og er hann því nú aðeins 4 höggum á eftir fyrri eiganda hússins (Tiger).

„Ég leit á a.m.k. 50 hús áður en ég kíkti á hús Tiger. Mikið af húsunum eru gömul og við enduðum á að breyta öllu. Við höfum líklega haldið 5% af upprunalegu húsinu. Við byggðum það í kringum Caleb.  Hann er t.a.m. með 3 leikherbergi.“

Húsið er í vöktuðu nágrenni (svokölluðu „Gated Community“ á ensku) og fá gestkomandi aðeins að koma inn á svæðið í gegnum vaktað hlið.  Bubba sagðist alltaf hafa búið í slíkum vöktuðum svæðum  og sagði m.a. um það „við sjáum það í fréttunum – heimurinn er brjálæður og það er gott að hafa hugarró þegar við förum í gönguferðir innan svæðana eða förum úr húsi (nokkuð sem við Íslendingar könnumst Guðsblessunarlega ekki við – þar sem við þurfum að hafa litlar áhyggjur af stórglæpamönnum.“

Bubba Watson er nú í hópi fjölmargra PGA Tour kylfinga sem búa nálægt Orlando, í Flórída, en þeirra á meðal eru m.a. Graeme McDowell, Ian Poulter og Justin Rose.

„Ég hef talað mest við Charles Howell,“ bætti Watson við. „Hann á 2 börn og hefir talað mikið um hversu fjölskylduvæn Isleworth sé. Þeir eru með sérstakar dagskrár fyrir krakka, tennisnámskeið, golfnámskeið, fjölskyldukvöld hvern miðvikudag fyrir kvöldmat. Þetta eru allt hlutir sem við viljum taka þátt í og golfvöllurinn er virkilega góður fyrir mig til að æfa mig á.“

Aðspurður hvort Bubba muni nú taka þátt í Tavistock Cup seinna í mánuðnum sagð Bubba: „Bara ef ég kemst í liðið – ég verð að standast kröfurnar. Vonandi hjálpar það til að ég sigraði á the Masters í fyrra.“

PS: Það athugaðist ekki fyrr en eftir á en þessi grein er sú 5.000 asta á Golf 1! … en Golf 1 hefir verið starfandi í 1 1/2 ár 25. mars n.k.