Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 11. 2014 | 11:00

Bubba hughreystir Patrick Reed

Tvöfaldi Masters meistarinn Bubba Watson, sem sigraði s.l. sunnudag á WGC-HSBC Champions í Shanghai sagði að hann hefði hughreyst landa sinn Patrick Reed, fyrir 2. hring heimsmótsins í Shanghai.

Reed á von á sekt vegna þess að honum varð á að blóta og nota orðið hommi í niðrandi merkingu og allt tekið upp af sjónvarpsmyndavélum sem þar voru nálægt.

Bubba sagði: „Hann kom til mín í gær (þ.e. á föstudeginum fyrir helgi) og sagði: „Hey, ég gerði svolítið af mér.“

„Ég (þ.e. Bubba) sagði: „Hvað gerðirðu?“ Og síðan sýndi hann mér myndskeiðið á símanum sínum.  Ég sagði : „Jamm þetta er ekki gott, þetta er ekki gott, maður.“

Á myndskeiðinu sést Reed missa stutt pútt á 10. holu 1. hrings HSBC mótsins og blóta sjálfum sér og viðhafa niðrandi orð um samkynhneigða.

Bubba, sem varð 36 ára s.l. miðvikudag kenndi í brjósti um hinn 11 ára yngri Reed.

„Ég (Bubba) sagði: „Nú, við lærum eitthvað úr öllum aðstæðum,“ bætti Bubba við.

„Það er þannig sem maður verður að betri manni, sagði ég við hann. Og það sama gildir um mig. Ég myndi veðja á að einhvern tímann áður en ég dey, nema ég deyi í kvöld, þá eigi ég eftir að gera eitthvað af mér.“

„Ég (Bubba) sagði:  „Segðu öllum að þér þyki þetta leitt og haltu áfram og vonandi fyrirgefa allir þér þegar tímar líða.“

„Þetta var bara óheppilegt orðaval.“

Reed sjálfur fannst hann strax höndla hlutina betur daginn eftir (þ.e. á föstudeginum fyrir helgi)

„Ég var svo upptekinn af augnablikinu að ég man ekki eftir að segja þetta. Ég man bara eftir að ég var æstur á vellinum,“ sagði Reed eftir að upp komst um blótsyrði hans.

„Í gær (þ.e. föstudaginn 7. nóvember) gerði ég heimskuleg mistök, það er alveg öruggt og mér þykir svo sannarlega leitt að hafa notað þau orð sem ég valdi.“

Reed sagði hljóðnema og upptökutækni vissulega orðna fullkomna en það væri engin afsökun.

„Vitið þið við lifum og deyjum í hverju höggi.  Þetta er bara eitt af því sem þarf að læra að fást við.“