Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 24. 2013 | 11:00

Brynjólfur Mogensen: Um forvarnargildi golfíþróttarinnar

Föstudaginn 22. nóvember 2013 var haldið málþing á vegum GSÍ, sem bar yfirskriftina: „Golf sem lífstíll.“

Þar hélt Brynjólfur Mogensen, yfirlæknir, góða ræðu um forvarnargildi golfíþróttarinnar.

Hann hóf fyrirlesturinn á að biðja málþingsgesti að íhuga hvað hver og einn þeirra gæti gert alla ævi, þ.e. frá vöggu til grafar?  Hann svaraði því síðan sjálfur til að flestallir gætu gengið áratugum saman allt frá því við fæðumst þar til við kveðjum þetta líf.

Ganga, tilhlökkun, vinir og fjölskylda allt væru þetta orð sem hann tengdi golfinu.

Flestir byggju yfir tilhlökkun og ættu fjölskyldu og vini.  Brynjólfur sagði að hann væri svo lánsamur að vera í golfhóp þar sem menn væru sem nýsloppnar kýr úr fjósi á vorin, þegar þeir kæmu saman að spila eftir veturna; tilhlökkunin væri mikil og allir ætluðu að vinna keppni milli þeirra og enginn að borga bjórinn.

Brynjólfur sagðist ekki endilega vera högglengstur í sinni fjölskyldu, strákarnir hans 4 væru allir lengri, en engum hefði samt tekist að vinna hann enn hingað til.

Hann sagði miklu betra ef makinn spilaði golf líka og frábært ef  börnin og barnabörnin léku golf líka.Hann sagði í því sambandi að mikilvægt væri að segja maka sínum ekki til á vellinum, nema maður væri beðinn um ráð, það einfaldlega leyfðist ekki, viðkomandi væri ekki dómbær og hefði hugsanlega ekki heldur þekkinguna til þess að segja maka sínum til. Þannig væri það bara.  Reyndar má segja að þetta ráð  Brynjólfs eigi ekki bara við um maka heldur kylfinga almennt úti á velli – það ætti enginn, óbeðinn, að gefa öðrum ráð…. og það verður sjaldnast of oft minnt á það.

Golfið gerir fólk heilbrigðara vegna þess að maður lifir lengur, ef maður gengur 10-11 km eins og oft er gert á golfhring…. en maður þarf líka að hafa ákveðið þrek til þess.

Mjög algeng golfmeiðsl eru álagsmeiðsl, bakvandamál og stirðleiki, en þar getur góður sjúkraþjálfari, sem Gauti Grétarsson gert kraftaverk.   Við getum flest ekki snúið upp á líkamann eins og Michelle Wie en mikilvægt er að nýta sér það sem til staðar er.  Jafnvel frábærir, sterkir og þrautþjálfaðir kylfingar og Dustin Johnson eiga við golftengd bakvandamál að etja.

Kjarninn er að hafa gott jafnvægi, samhæfingu, liðleika og svo skila auðvitað æfingar árangri en þar vitnaði Brynjólfur í Jón Hauk í GR sem sagði: „Ef maður æfir verður maður heppnari,“ en það eru s.s. engin ný vísindi í því.

Brynjólfi fannst sumaraðstaðan til golfæfinga góð, en betri vetraraðstöðu vantaði.  Hann sagði að huga yrði vel að skrokknum á veturna til að minnka líkurnar á einhverri vitleysu.

Brynjólfur sagðist hafa gert könnun á komu sjúklinga með golfákverka á bráðavakt og þar hefði hann skipt sjúklingum niður eftir áverkum og af hvaða íþrótt þeir stöfuðu með eftirfarandi hætti:

Vinsældir  Komur  Innlagnir

1 Fótbolti  7141     146

2 Golf 127  6

3 Hestar 863   66

4 Fimleikar 950

5 Handbolti 1536

6 Karfa 1571

16 Skíði 933

Flestir sjúklinganna sem komu með golfáverka voru á aldursbilinu 46-60 eða alls 66.  Meðalaldur þeirra sem komu var 43,2 ára. Oftast hafði viðkomandi dottið eða misstígið sig (28%) eða meitt sig í sveiflu (23%).

Áverkar af völdum golfbolta eða kylfu voru algengastir í yngsta aldursflokknum þ.e. meðal barna og unglinga 1-15 ára (19 voru með áverka af völdum kylfu og 6 af völdum golfbolta).

Algengast var að meiðsl eða áverkar væru á höfði, handlegg og ganglimum.  Innlagnir af völdum golfáverka voru þó aðeins 4,4% af öllum íþróttaáverkum og í 81% tilvika var áverkinn lítill, í 17% tilvika meðal og mikill í aðeins 1% tilvika.

Þegar farið er í að áverkagreina kylfinga þá var í 39% tilvika um að ræða tognun vegna ofreynslu eða þess að ekki var hitað upp, 22% voru með mar og 20% sár, 19% með aðra áverka.

Niðurstaðan var sú að slys meðal kylfinga væru marktækt færri en í öðrum íþróttum, slasaðir væru marktækt eldri en í öðrum íþróttum, og golfslys eru aðeins 0,7% íþróttaslysa.

Þ.a.l. má segja að golf sé hættulítil íþrótt. Og af þeim meiðslum og áverkum sem stafa vegna golfiðkunar og sem hlynna þarf að á bráðavakt eru langflest minniháttar.

Brynjólfur sagði golfið gott fyrir sálina, gott fyrir skrokkinn, gott fyrir allt. Hann sagðist loks hafa velt fyrir sér hvort hægt væri að hindra Alzheimer með golfi.  Golfið væri stórkostleg íþrótt.

Að lokum tók Brynjólfur við fyrirspurnum og bað m.a. einn málþingsgesta Brynjólf að sýna svo sem eina jafnvægisæfingu.  Brynjólfur fór létt með það. Hann sagði að þetta væri æfing sem allir gætu gert.  Þ.e.a.s. reyna ætti að standa á öðrum fæti á morgnanna þegar farið væri í sokkana. Ef menn gætu það ekki væri kannski kominn tími á að gera eitthvað í málunum – fara í ræktina, gera jafnvægisæfingar, fara til sjúkraþjálfara eða læknis.