Ragnheiður Jónsdóttir | október. 30. 2013 | 12:10

Brot af samtali Rory og Tiger í einvíginu í Kína

Rory McIlroy hefir útskýrt hvers vegna hann ætlar að taka upp fasta búsetu í Bandaríkjunum á næsta ári og gera $10.9 milljóna heimili  sitt í  Palm Beach Gardens, Flórida, að lögheimili sínu.

Hann lét líka nokkur orð falla um nýjan dræver sem koma mun honum í sigurgírinn aftur á golfvellinum og hann talaði líka um vandræði sín með fleygjárnin og púttin.

Allt þetta og fleira var það sem  Rory sagði við Tiger þegar þeir áttust við í einvíginu við Jinsha vatn á Hainan eyju í Haíkou, Kína s.l. mánudag, en þessu einvígi var sjónvarpað um allt Kína og m.a. líka hvaða orðaskipti áttu sér stað á milli stórstjarnanna, nokkuð sem sjaldnast fylgir þegar sent er út frá mótum.

Samtal Rory við Tiger  byrjaði á að Rory rifjaði upp þegar þeir Tiger spiluðu 36 holur í „heimaklúbbi þeirra“ The Medalist í Suður-Flórída.

„Ég hef ekki séð neinn spila eins hratt og þig þann dag,“ sagði Rory.

„Þú hatar hægan leik, er það ekki?“ svaraði Tiger. „Á túrnum spilar þú alltaf hratt.“

„Jú, ég hata hægan leik,“ sagði Rory og bætti við „Ég spilaði við Harrington í gær!“ Rödd kínverska þularins gerði það erfitt að skilja hvað Rory sagði næst en það voru víst engin hrósyrði um Harrington!

„Ó,“ sagði Tiger næst. „Þú veist að hann (Harrington) er orðinn miklu betri með þetta.“

„Jamm,“ sagði Rory, „en maður bíður bara og hugsar hey taktu ákvörðun og sláðu!  En hvað sem er þú þarft nú ekki að hafa áhyggjur af þessu í dag!“

Þeir sem fylgdust með einvíginu í beinni áttu oft erfitt með að heyra í Tiger en hann var með kvef og hita, saug upp í nefið meðan hann bað kaddýinn sinn, Joey La Cava, stöðugt um hálstöflur. (Vonandi að milljónum Kínverja finnist ekki flott að sjúga upp í nefið og vera með hálstöflur á vellinum!!!)

Það voruhins vegar öll ensku „F-orðin“ sem Tiger lét falla á 17. flöt þegar hann sá,  það sem blasti við, að hann myndi tapa fyrir Rory.  Þá lentu kínversku þulirnir í vandræðum með að þýða skammaryrðin á kínversku, þannig að sæmandi væri að bjóða kínversku þjóðinni upp á þessi blótsyrði frá hetjunni!

Fremur óviðeigandi líka þegar litið er til þess að talið er að Tiger hafi fengið  $2 milljónir  og Rory  $ 1.5 milljón fyrir 3 1/2 tíma leik á golfvellinum!

Það sem í upphafi átti að vera fræðandi samtal milli Rory og Tiger (ekki spila hægt á golfvelli) snerist eiginlega í sýnikennslu um hvernig á ekki að hegða sér (blóta og ragna)!!!  Slæmt fordæmi sem nr. 1 sýndi þarna!!!