Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 12. 2022 | 20:00

Bridgestone slítur samningum við DeChambeau vegna þátttöku hans á LIV

Bridgestone tilkynnti í dag, að félagið hafi slitið sex ára samstarfi við Bryson DeChambeau, en DeChambeau auglýsti golfvörur Bridgestone og spilar m.a. með Bridgestone bolta.

Bridgestone nefndi að það væri þátttaka DeChambeau á LIV sádí-arabísku ofurgolfmótaröðinni, sem væri ástæða þess að félagið hefði slitið samningum við DeChambeau.

Í yfirlýsingu Bridgestone Golf sagði m.a.: „PGA mótaröðin er ákaflega mikilvægur hluti af atvinnugolfi og á Bridgestone í markaðssamstarfi við mótaröðina. Í ljósi þess að Bryson DeChambeau er ekki lengur þátttakandi í viðburðum mótaraðarinnar hafa Bridgestone og Bryson komist að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að slíta samstarfinu.“

Bridgestone hefir átt langt og farsælt samstarf við PGA mótaröðina og kemur ofangreint ekki á óvart.

Rocket Mortgage rifti einnig öllum samningum sínum við DeChambeau, fyrr á árinu, vegna fyrirhugaðrar þátttöku hans á LIV.

Veran á LIV getur verið ábatasöm, en atvinnukylfingarnir eru einnig að verða af mjög vænum auglýsinga- og samstarfssamningum við stórfyrirtæki s.s. dæmi DeChambeau sýnir.