Bandaríski kylfingurinn Brandt Snedeker
Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 19. 2012 | 07:00

Brandt Snedeker fór holu í höggi á par-4 á Royal Lytham og fékk því jafnframt albatross

Brandt Snedeker sem sigraði svo eftirminnilega á Farmers Insurance Open á PGA mótaröðinni í janúar fór einn æfingahring í gær á Royal Lytham&St. Annes, þar sem Opna breska hefst í dag. Snedeker notaði járn og sló eftir 16. brautinni, sem er par-4 og 336 yarda (u.þ.b. 307 metra)  í átt að holu.  Hann dró síðan upp dræverinn til þess að fá hugmynd um bestu línuna í átt að teig ef svo skyldi vilja til að honum hugnaðist að verða agressívur.

„Það voru ekki margir á vellinum, u.þ.b. 6 manns,“ sagð Snedeker. „Um það leyti sem ég gekk að fyrri bolta mínum til að slá hann með fleygjárni af braut var fólkið byrjað að klappa hjá flötinni.  Ég sagði:„Fyrir hverju eruð þið að klappa?“  Það sagði:„Þú varst að fara holu í höggi.“  „Ég gat bara ekki trúað þessu.“

Þetta var albatross og jafnframt ás, allt í einu höggi, en það taldi ekki – þetta var 2. högg hans og þetta var bara æfingahringur.

En það skipti engu. Snedeker var hæstánægður.

„Ég sá hann ekki fara ofan í,“ sagði hann. „Þeir sögðu að þetta hefði ekkert verið óvenjulegt, hann hefði bara rúllað í miðju holunnar.“

Þetta er í 2. skipti sem draumahögg er slegið á par-4 holu, á æfingahring á risamóti, á árinu. Í Olympic Club á æfingahring fyrir Opna bandaríska nú fyrr í sumar,  fór Spánverjinn Alvaro Quiros holu í höggi á 288 yarda (263,3 metra) 7. holunni. En það var einn stór munur. Myndavél hafði verið komið fyrir við 7. flöt á Olympic og allt var fest á filmu.

Það er ekkert slíkt vídeo til af afreki Snedeker; þetta er aðeins augnablik, sem hann gleymir örugglega ekki svo fljótt.

„Ég var bara að reyna að fá línuna hvert ég ætti að slá með drævernum,“ sagði Snedeker. Þegar hann gekk af flöt, sneri hann sér að kylfubera sínum, Scott Vail og sagði:„Ég held að við séum komnir með línuna.“

Og hvað með albatrossboltann góða? Snedeker gaf heppnum enskum strák boltann, sem var að horfa á.

„Ég áritaði boltann og gaf stráknum hann“ sagði Snedeker að lokum.

Heimild: CBS Sports