Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 14. 2012 | 19:15

Branden Grace stefnir á að sigra SA Open

Eftir að hafa sigrað 4 sinnum á nýliðaári sínu á Evrópumótaröðinni, þá getur Branden Grace náð að toppa þetta allt saman með titli sem hann setur ofar öllu: að sigra heima í Suður-Afríku á SA Open.

Skotinn Richie Ramsay er eini alþjóðlegi kylfingurinn sem tekist hefir að sigra á hinu sögulega South African Open síðasta áratuginn, þannig að þeir sem líklegastir eru taldir til að sigra í Serengeti nú um helgina eru Suður-Afríkumennirnir Branden Grace,  Charl Schwartzel og sá sem á titil að verja Hennie Otto.

Grace sigraði á Joburg Open, Volvo Golf Champions, China Open og Alfred Dunhill Links og er þannig í 6. sæti á peningalista Evrópumótaraðarinnar.

South African Open er næstelsta mótið í golfi (1893) á eftir Opna breska (1860). Sigur fyrir Grace myndi setja hann á pall með Ernie Els, Retief Goosen og golfgoðsögnunum Gary Player og Bobby Locke.

„Ég hef verið að hlakka til þessa móts. Ef maður er suður-afrískur kylfingur, þá er þetta mótið sem maður vill sigra á,“ sagði Grace.