Ragnheiður Jónsdóttir | október. 15. 2013 | 07:00

Blindur kylfingur fær ás!

Jim O´Brien, sem er alblindur, sló við líkum sem eru upp á 20.000 á móti 1 að blindur maður fari holu í höggi!

Talið er að hann sé aðeins 1 af 3 blindum mönnum á Bretlandi s.l. 20 ár sem farið hefir holu í höggi.

Þetta afrekaði O´Brien á par-3 6. holunni í Hindhead golfklúbbnum í Surrey, miðvikudaginn 9. október 2013, þegar hann tók þátt í Peter Allis Eye2Eye Challenge mótinu.

O´Brien, sem er 71 árs og hefir spilað golf í 16 ár var þar að taka þátt í ofangreindu góðgerðarmóti, þar sem allir þátttakendurnir voru blindir og höfðu með sér leiðsögumenn, með fulla sjón.

Jim O´Brien með leiðsögumanni sínum John

Jim O´Brien með leiðsögumanni sínum John

O´Brien sem fæddur er í Skotlandi en býr í  Market Harborough í Leicestershire, sagði eftir afrekið: „Í hvert sinn sem ég geng á flöt hugsa ég um að vonandi hafi ég farið holu í höggi.  Þetta er draumur sérhvers kylfings, en sá draumur verður ákafari þegar maður er blindur. Þegar við slógum af teig fannst mér ég slá boltann bara ansi fínt.  Ég var bara að hugsa, vonandi nær hann inn á flöt. Nokkrum sekúndum þar á eftir sagði náunginn sem var með mér: „Þetta var hola í höggi!“

„Þetta var frábær tilfinning – þetta er ótrúlegt!“ sagði glaður Jim O´Brien eftir að hafa slegið draumahöggið. „Ég hélt upp á afrekið með stóru glasi af rauðvíni!!!“